sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Flatfiskrúllur

09.02 5/11/04

Fiskur kemur víða við sögu í Biblíunni og sögu kirkjunnar. Fiskur er stórtákn, heilsusamlegur til íhugunar og átu! Þessi fiskréttur er skemmtilegur í gerðinni, fallegur á borði og bragðgóður. Einu gildir hvort notuð er smálúða eða rauðspretta. Bragðið verður ekki það sama, en maturinn verður góður, ef sál er lögð í matargerð og hráefnið er gott. Ichþys! Áfram…

Fjörutíugeira kjúklingur

22.22 26/10/04

hvítlaukur og kjúklingurÞví meiri hvítlaukur því betri matur. Enginn skyldi hafa áhyggjur af lyktinni. Því meiri hvítlaukur þeim mun minni lykt! Fjörutíugeira-uppskriftin er einhver stórkostlegasta kjúklingauppskrift sem til er og því elduð reglulega í Litlabæ. Það er svolítið maus að flysja laukinn en það kemst upp í vana. Ég skora á þig að prufa! Áfram…

Út að borða í París

12.01 16/10/04

Bofinger

Fyrir nokkrum árum bjuggu Inga Rós Ingólfsdóttir og Hörður Áskelsson í París og gerðu strandhögg í veitingahúsunum borgarinnar. Þegar Íslandsklakinn bráðnaði og menningarveislan í París stóð sem hæst voru þau þar komin til að spila og stjórna. Áfram…

Espresso súkkulaðibitakökur

09.04 2/9/04

góð súkkulaðikaka út í garðiFátt slær út súkkulaðiköku við lok veislu. Sú franska hefur oft verið á okkar borðum í Litlabæ og af skiljanlegum ástæðum. Þegar fjölskyldan var í Kaliforníu datt Elín í uppskriftabækur og blöð og veiddi þessa fínu uppskrift og lagaði hana lítillega. Súkkulaðigrísir allra landa sameinast í umlinu. Áfram…

Grænmetisvefjur með kóríandersósu

16.36 1/9/04

grænmetisvefjur

Aldeilis frábærar vefjur, kannski ekki síst að hafa þarf fyrir namminu. Hægt er að fara styttri leiðina og kaupa tortillur í búðinni en heilsuklúbburinn mælir með, og ég er sammála, að vefjurnar séu heimabakaðar úr spelti. Hollt og svo gott.

Best er að búa fyllinguna á undan vefjunum.

Grænmetisfylling

1 poki rifinn mozzarella ostur

1 bolli grænar linsubaunir

2 bollar vatn

sett í pott og soðið í u.þ.b. 30 mín

olía til steikingar

1 meðalstór rauðlaukur, saxaður

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

1 msk. Krydd lífsins frá Pottagöldrum

500 gr. afhýddir ferskir tómatar, maukaðir í matvinnsluvél

Til að afhýða tómatana er best að láta þá ofaní sjóðandi vatn smástund og fletta síðan af þeim hýðinu.

2 msk. tómatpúrre

1 meðalstór sæt kartafla, rifin í matvinnsluvél

1 kúrbítur, rifinn í matvinnsluvél,

1 lítil rauð paprika, rifin í matvinnsluvél

1 grænn chillí pipar, fræhreinsaður og smátt saxaður

1 msk balsamedik

¾ tsk salt

¾ tsk pipar

1 hnefafylli fersk kóríanderlauf

1 hnefafylli fersk steinselja, saxið úti

Léttsteikið rauðlaukinn í ólívuolíunni, bætið síðan hvítlauk útí og síðan öðru hráefni koll af kolli. Látið grænmetið malla í 10-15 mínútur. Bætið síðan linsunum úti.

Geymið þar til vefjurnar eru tilbúnar.

Vefjur úr spelti

300 gr sigtað spelt

100 gr. gróft maísmjöl

1 tsk vínsteinslyftiduft

1 msk. ólívuolía

1 tsk salt

2,5 dl volgt vatn

Blandið öllu saman og hnoðið vel, skiptið í 10 hluta og fletjið út á bökunarpappír. Hafið kökurnar eins þunnar og mögulegt er og jafnstórar og pönnukökur. Hafið nóg af spelti við höndina svo deigið festist ekki við pappírinn. Bakið á pönnukökupönnu við meðalhita í 10-15 sekúndur á hvorri hlið. Til að halda vefjunum mjúkum er best að setja þær undir rakt viskustykki þegar búið er að steikja þær.

Síðan eru vefjurnar smurðar með fyllingunni, rifna ostinum er stráð yfir og hitað í ofni rétt fyrir framleiðslu þannig að osturinn inní vefjunum hefur bráðnað.

Kóríandersósa sósa

1 poki ferskt kóríander
4/5 dl fersk mynta
1 tsk saxaður jalapeno
1 hvítlauksrif

1 tsk rifin fersk engiferrót
2 msk. sírónusafti
1/2 tsk steytt kúmen
1 tsk hunang
salt
pipar
1 dós lífræn hrein jógúrt frá Bio Bú

Maukið kóríander, myntu, jalapeno, hvítlauk, engiferrót, sítrónusafa og kúmeni í blandara. Hrærið hunangi í jógúrtina og blandið síðan maukinu útí.

Saltið og piprið eftir smekk.

Eins og sjá má Heilsuklúbbsuppskrift. Höfundur Katrín Árnadóttir, guðmóður klúbbsins. Uppskriftin birtist í Gestgjafanum í ágústhefti 2004.

Kúskússalat með ferskjum og kryddjurtum

16.17 1/9/04

kúskúsnammiHér kemur kryddjurtakúskús, sem í er í senn einfalt og viðheldur sumargleði eða endurvekur sumarandann. Áfram…

Berjakaka

09.31 29/8/04

berjakakaBerin eru á trjánum og lyngið er svart. Um að gera að nota berin núna! Hér er uppskrift að berjaköku. Eins og oft vill verða er uppskriftin einföld en afraksturinn gleðigjafi. Það er haustdjúp í bragðinu. Áfram…

Kjötbollur í ólympíuflokki

22.23 17/8/04

kjötbollurKjötbollur eiga að vera góðar! Frænka mín bauð til veislu nýlega og meðal annars voru bornar fram eðalbollur. Uppskriftin var auðfengin, var kostuleg og kom á óvart. Allir geta búið til þessar bollur og þær eru fallegar á diski. Áfram…

Líf og matur í Litlabæ

10.18 26/6/04

nammiMatarhorn Morgunblaðsins birti stutt viðtal og uppskriftir úr Litlabæ á kvennfrídeginum 19. maí. Salat og brauð, kjúklingur og rabbarbara-desert, einfaldar uppskriftir. Svo hringdu kátir og glaðir og þökkuðu fyrir matinn. Verði öllum að góðu. Hér fer textinn á eftir.

Áfram…

Humarveisla

21.15 12/6/04

Hornfirskur humar

Það er heldur munur að eiga vinkonur sem hringja með stuttum fyrirvara og tilkynna að þær komi í kvöldmat og komi með helling af humar! Þá er bara að kynda grillið, merja hvítlauk út í smjör og hnoða deig í Elínarbrauð. Áfram…

Grillaðar paprikur

23.30 4/6/04

Grillaðar paprikur eru lostæti, með góðri ólífuolíu, ristuðum furuhnetum og svo er hér sletta af konungskáli, þ.e. basiliku, og klettakáli ofan á. Ekki veit ég hvort nafngjöf basilikunnar er til en kóngur á grísku og basileus, ef ég man rétt. Og konungskál er því ekki ónefni. Svo er það ótrúlega gott í matreiðslu og krefst næmni að nota rétt magn.

grillaðar paprikur og nammi

Eggaldinhnoss

12.16 22/5/04

Á páskadag 2004 lentum við í veislu í Kaliforníu. Veislustíllinn var ítalskur, fjöldi dásamlegra raðrétta. Þar á meðal var eggaldinréttur, sem ég féll fyrir. Hann var páraður niður og eldaður þegar heim var komið. Ummið var allra og margir hafa beðið um uppskriftina, sem kemur hér á eftir.

Eggaldin (fjöldi eftir smekk og tilefni)eggaldinréttur

Balsamikedik

Góð ólífuolía

Hvítlaukur

Geitostur (Ostabúðin á venjulega ef heimabúðin bregst)

Capers (smágerðin)

Basilikublöð

Eggaldinin eru langskorin í 4-5 millimetra sneiðar. Þær eru síðan saltaðar með borðsalti báðum megin til að ná út vökva. Látnar liggja í nokkrar mínútur og síðan skolaðar vel í rennandi kranavatni. Þerraðar vel með eldhúspappír og þess gætt að pappírinn verði ekki eftir! Steiktar síðan í mikilli ólífuolíu á pönnu, þ.e. nánast djúpsteiktar þar til sneiðarnar fara að brúnast báðum megin. Teknar upp úr og olían látin renna af. Síðan eru sneiðarnar langskornar til að mynda ræmur og þær síðan lagðar smekklega, helst á hringlaga fat! Olífuolíu, balamikediki og fínsneiddum hvítlauk blandað saman í skál og síðan helmingnum dreift yfir sneiðarnar. Síðan geitostbitum eða ferningum dreift yfir í góðu magni og smácapers. Þá kemur síðari slettan af olíu-balsamikblöndunni og ofan á allt koma basilikublöð eftir smekk. Mælieiningarnar hef ég ekki tekið til, en hef það eins og gamalklókar húsmæður, að skvetta eftir innri tilfinningu reynslunnar.

Þetta er góður réttur. Ég hef bæði prufað asísk smáeggaldin frá Nings og þessi venjulegu svörtu og stóru. Hvort tveggja gengur.

Páskaveislan var hjá Sandy og Eric Freeberg og það var ofurkokkurinn Sandy sem hafði veg og vanda að eldamennskunni.

Góða skemmtun og veislu.

Kjúklingabringur í rasphjúp

11.29 22/5/04

ánægður kokkur með kjúkling!

Í hlaðborðsveislum er upplagt að bjóða kjötrétt sem fingrafæði. Á okkar heimili er rautt kjöt á undanhaldi og flestum þykir hvítt kjöt gott. Ég steikti kjúkling í afmælisveislu Elínar í apríl og var ánægður með hann. Afmælisbarnið og gestirnir voru líka kátir sem er aðalatriði! Svo þegar Tinna, systurdóttur konu minnar, varð stúdent í gær hélt hún veislu hér í Litlabæ. Ég prufaði kjúklinginn að nýju og hann klikkaði ekki.

4 kjúklingabringur

2 m.sk. dijon hunangssinnep

salt og grófmalaður pipar

2-3 m.sk. fersk steinselja

Paxo-kjúklingarasp

2 m.sk. brætt smjör

sítrónusafi

Þverskerið bringurnar í strimla. Blandið saman sinnepi, salti og pipar í skál. Setjið kjúklingabitana út í og veltið þar til kjötið er vel smurt með leginum. Leggið á diska og hellið raspinu yfir. Smjörpappír á bökunarplötu. Takið einn og einn bita og tryggið að raspið sé á alla kanta og setjið svo á pappírinn á plötunni og látið þá ekki liggja alveg þétt. Þegar allir bitarnir eru komnir á plötuna er ofurlítið af sítrónusafa sett á alla bita. Síðan er kjötið sett í 180 ºC heitan ofn og steikt í 15 mínútur. Þá er skúffan tekin út og bráðnu smjörinu rennt yfir bitana. Síðan er steikt í 5 mínútur í viðbót, sem sé samtals 20 mínútur.

Síðan er auðvitað hægt að baka bringurnar óskornar, þ.e. heilar, og lengið þá steikingartímann í ofninum um 5 mínútur og heildarbaksturstími er þá 25 mínútur. Ef brauðrasp er notað er rétt að nota 1-2 m.sk. af þurrkuðum kryddjurtum. Matreiðslan er einföld og hægt að konferera ef vinir eru nærri. Gunnar Sandholt, fóstri, sat hjá mér einu sinni og notaði svo hugmyndina fyrir folaldakjöt! Uppskriftargrunnurinn kom úr Gestagjafanum.

· Næstu færslur »

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli