sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Tilbrigði við gult og glatt

18.29 13/9/04

Hallgrímskirkjukantór í NeskaffiKantórinn í Hallgrímskirkju og kona hans eru búsett í Nessókn. Þau Hörður Áskelsson og Inga Rós Ingólfsdóttir komu í dag til að gleðjast yfir nýju safnaðarheimili og prufa hvort kaffið væri almennilegt. Ekki vantaði gleðina og fögnuðinn. Þegar þau fóru leitaði hugur eitt ár til baka. Þá starfaði ég með þeim í kirkjunni á Skólavörðuholtinu. Áfram…

Hátíð kristni

23.24 27/8/04

Í dag höldum við hátíð, minnumst íslenskrar kristni í þúsund ár. Minnumst Þorgeirs Ljósvetningagoða. Honum var vandi á höndum. Samfélag Íslendinga þeirrar tíðar var á barmi borgarastyrjaldar. Vits var þörf. Feldlega Þorgeirs var hans eldsókn og miklu skipti að hann fyndi rétta og mikilvæga niðurstöðu. Hann tók tillit til leikreglna, hann talaði með viti til stríðandi fylkinga og bar eldinn til manna. Lífi var borgið. En í dag getum við hugað að fleiri stórviðburðum sem hafa skipt máli.

Í dag er siðbótardagur, meira segja einn hinna merkustu. Liðlega fimm hundruð árum eftir þingákvörðun um kristni þjóðar, mundaði Lúther hamarinn, á þessum degi árið 1517 og hengdi upp tesur (kenningar) sínar á auglýsingarskilti þess tíma, kirkjuhurðina. Það var upphaf þessarar hreyfingar, sem við kennum okkur til í kirkjulegum efnum. Kirkjan okkar er evangelísk-lútersk eins og segir í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þú getur eflaust dregið fram í huga slitur úr mannkynssögunni, eitthvað um þessa löngu liðnu atburði þegar Lúther var að mótmæla því sem honum fannst fara miður í kirkjulífi samtíðar sinnar. Hann sá, að biblíutúlkun kirkjunnar var á villigötum. Páfaveldið stóð í miklum framkvæmdum og þurfti fé til að reisa hina stórkostlegu kirkju í Róm. Því var gripið til óyndisúrræða og haft fé af trúgjörnum sakleysingjum með því að selja þeim aðgangsbréf að lyftuför í Paradís. Lúther uppgötvaði, að þetta var algerlega úr takti við Ritninguna. Hann gerði því uppreisn gegn fjármálakerfi samtíðar sinnar og kallaði yfir sig og félaga sína reiði hinna miklu, máttugu og ríku. Þá, engu síður en nú, voru það fjármagnseigendurnir sem stjórnuðu. Þangað sækir féð sem féð er fyrir er gömul saga og ný. Fuggerfjöskyldan var ekki hrifin af tiltæki Lúthers, því hann beitti sér gegn peningakerfinu og innkomu þeirra. En mestu skipti, að Lúther hafnaði því að það væri mannsins verk að vinna sér inn höfuðstól á himnum. Hann setti fram nýja kenningu um hvernig maðurinn verður réttlátur. Frelsun mannsins og lausn hans úr fjötrum syndar og dauða væri Guðsverk en ekki mannsins.

Við Lúther var brugðist. Páfinn beitti hann refsingum og útskúfaði og snerist gegn hinni vaxandi hreyfingu mótmælendakirkna. Sumt af þessari sögu munum við og þekkjum. Norðurhluti Evrópu kalla sig mótmælendur. Kirkjudeildir um allan heim, hvort sem þær eru lútherskar eða eiga sér aðra sögu, rekja upphaf til munksins sem negldi bréf á kirkjudyr í Wittenberg 31. október 1517.

Í sinni eldsókn fór Lúther aðra leið en allir samtímamenn hans. Hann öðlaðist nýjan skilning, sem varð honum og samfélagi Vesturlanda afar mikils virði. Því má halda fram að nútímamenning, framfarir í vísindum og lífsgæðum sem við njótum, eigi einnig sitt baksvið í þessum viðburðum siðbótarinnar.

Nýtt upphaf

En þessari sögu lauk ekki á 16. öld, heldur á sér framhald í dag. Fyrir stundu var hópur samankominn í Ágsburg í Þýskalandi til að gera upp endanlega það sem hófst 1517. Þessi dagur, 31. október 1999, er merkilegur dagur í lífi lútersku og kaþólsku kirkjunnar um allan heim. Í þrjátíu ár hafa guðfræðingar þessara kirkna rætt saman, borið saman bækur sínar, bæði í biblíufræðum og trúfræði og loks náð sameiginlegum skilningi á hvað trú og réttlæting merkja. En það var einmitt það, sem greindi Lúther og miðaldakirkjuna að. Fyrir stundu stóðu Cassidy kardínáli, næst-valdamesti maður kaþólsku kirkjunnar, og Ismael Noko, forseti lúterska heimssambandsins saman í Ágsburg og undirrituðu yfirlýsingu um sameiginlegan skilning kirkjudeildanna tveggja á eðli trúarinnar og starfi Guðs gagnvart mönnum. Ýmsum þykir að vísu, að hér sé um að ræða trúfræðilegt bókhaldsuppgjör fyrndra mála. En engu að síður hefur það verið mismunandi skilningur, sem hindrað hefur samvinnu þessara kirkna. Nú er ýmsum hindrunum rutt úr vegi og kirkjurnar geta tekið á ýmsum málum saman.

Meðferð eldsins

Það er ekki sama hvernig á lífsgæðum er haldið. Það er auðvelt að sóa og glata. Ef halda á eldlíkingunni er hægt að skemmta með heldur óskemmtilegri reynslu bónda eins í Þingvallasveit á nítjándu öld. Hann og hestur hans höfðu verið á leið um hraunið hjá Skógarkoti í miðri Þingvallakvosinni. Bóndinn var þar í eldför því glóðarhnullungar voru í skinnbelg sem bundinn var upp á hest. Ekki fór betur en svo að kolin gerðu gat á belginn, hesturinn brenndist og tók á stökk og dreifði kolum um allt. Það kviknaði í mosa og kvisti og talsverður hluti Þingvallaskógarins brann. Það er ekki sama hvernig með líf er farið. Erum við í sporum karls, með glóð á brenndu hrossi. Hugum að, hvernig við förum að. Eru margar Signýjarnar og Ásurnar meðal okkar og jafnvel í okkur sjálfum?

Kulnar í glæðum?

Við sjáum breytingar í hinum vestrænu samfélögum. Ég nefni aðeins nokkur atriði og þau eru mislangt á veg komin:

*Í stað samhjálpar veður einstaklingshyggja uppi.

*Í stað stórfjölskyldna eru kjarnafjölskyldur, sem eiga í vök að verjast vegna einstaklingshyggjunnar.

*Í stað samfélags hófstillingar og hjálpsemi ríkir víða grímulaust ofbeldi. Sá þykist ná lengst, sem dugmestur er að hrifsa og lemja. Ofbeldisdýrkunina sjáum við hvarvetna og þurfum ekki lengi að stara á skjáinn til að nema boðskapinn.

*Í stað nýtni er neysla, stöðug sókn í hluti í stað þess að sækja í gæði og endingu.

*Í stað heilinda og skuldbindinga bregðast einstaklingarnir við með sjálfhverfu móti og spyrja fyrst og síðast: Hvað græði ég á þessu? Um hitt er síður spurt sem hefur verið góð siðfræði: Hvernig á ég að umgangast aðra svo þeir hafi gagn en ekki skaða af.

*Í stað dýpri og varanlegri gilda sækjast margir eftir auði og ytri táknum velgengni.

*Í stað þess að leita andlegra gæða, þroska og visku hneigjast margir til véladýrkunar. Tæki verða ekki lengur það sem við notum til að ná markmiðum, heldur markmið í sjálfum sér. Þessi véladýrkun kemur fram með ýmsu móti t.d. í kappakstursíþróttum.

*Í stað þess að vinna, til að sjá sér og sínum farborða verður vinnan að sjúkdómi hjá mörgum. Menn kunna sér ekki hóf og flýja.

*Í stað þess, að tungumálið sé vettvangur gilda og tjáningar á dýptum manneskju og menningar verða æ fleiri lítt talandi. Tungan er lykilatriði menningar og því er fátæklegt málfar mikið sorgarefni og tákn vandkvæða.

Svona getum við haldið áfram og séð mistök í eldsókn samtíðarfólks. Og við getum haldið fram Helgu úr sögunni sem tákni fyrir hamingjufund.

Feginn vil ég eiga þig að

Á nýju árþúsundi mun þróun fleyta þér og samfélagi okkar inn í röst þar sem stálið í okkur verður reynt. Hvernig ætlum við að bregðast við sem einstaklingar og hvernig ætlum við að bregðast við sem samfélag og kirkja.

Hvers virði er kirkjan þér og hver er trú þín. Á degi kristnihátíðar, siðbótar og uppgjörs er spurt um þína sókn til gæða. Hver er þín eldsókn, hver er þinn háttur í lífinu. Hrifsar þú til þín, og missir nef eða hendi. Eða áttu hófstillingu í lífinu, sækir þú í lífsgæði sem máli skipta. Þegar dýpst er skyggnst inn í helli þinn er spurt: Hver er trú þín? Þegar við höldum hátíð, þegar við snúum okkur til nýrrar aldar, berst til okkar kall.” Það er rödd gildanna, djúpsins, himinsins. Hverju svörum við? Svörum við með skeytingarleysi og ypptum öxlum? Eða svörum við með vandvirkni og sannleika: “Ég vil gjarnan eiga þig að í nútíð og framtíð. Eiga þig að því ég get ekki gengið götuna fram nema studdur.” Þar er rödd kirkjunnar, rödd Guðs.

Jesús Kristur vitjaði íslenskrar þjóðar eftir Þingvallaatburðinn árið 1000. Það var heimsbyggðinni happ og hamingjuauki, að Lúther brást ekki í eldsókn sinni fyrir fimm hundruð árum. Meira að segja kaþólikkar nútíðar njóta ylsins og ganga inn í nýtt árþúsund ríkari en áður. En hvaða prins bíður þín? Hvaða blessun sækir þú utan lífsgæðanna sem þú getur keypt þér? Til þín berst spurning úr framtíð: “Viltu eiga mig að”? Hlustaðu grannt. Svaraðu einnig: “Feginn vil ég eiga þig að.”

Flutt á siðbótardegi, 31. október, 1999, í Félagsheimilinu í Laugalandi í Holtum. Birtist síðan því góða héraðsriti Goðasteini, 36, 2000.

Mannamyndir, grímur og guðsmynd

15.43 19/6/04

Gunnar Örn: Sálir

Einu sinni málaði listamaðurinn Gunnar Örn líkamsparta og iðraslitur, en gekk svo í endurnýjun lífdaga og máldaga og hefur myndað sálir með penslinum. Hann hélt svo sýningu á þeim á síðasta ári. Myndirnar voru agaðar í einfaldleika sínum og urðu mér tilefni íhugunar um myndir manna. Hér er grein sem ég skrifaði í Moggann. Áfram…

Mál beggja kynja

10.51 24/5/04

tvö samvirk“Sex inclusive language – Guidelines.” Talsverður bunki af blöðum, námsskrám, upplýsingum og leiðbeiningum var lagður í hendur nýnemanna í guðfræðideild Vanderbiltháskóla haustið 1979. Þetta var eitthvað á skjön við allt hitt: “Sex-inclusive language – Guidelines.” Hvað er nú það? Áfram…

Kyrrðarstundir

01.15 20/5/04

í kyrrð nýtist birtan að ofanKyrra er eftirsóknarverð og kyrrðarstundir eru lífsnauðsyn öllum mönnum.

Sumardagur árið 1974 í svissnesku Ölpunum austan Lausanne. Amerískur hippaprestur, Francis A. Schaeffer, laðaði til sín ungt fólk af meginlandi Evrópu og frá Ameríku. Áfram…

Trú og mál manna

22.04 14/5/04

sólkerfið </p>
				</div>
			</div>

		
<p align= · Næstu færslur »

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli