sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Páskabæn

15.56 27/3/05

Allt lífið skapar þú. Allt lífið leysir þú. Allt lífið nærir þú. Hér fylgir lofsöngur eða sálarsöngur til Guðs. Bænin var beðin við altarið í Neskirkju í messu á páskadag. Áfram…

Þú, lífsins Guð

23.30 20/3/05

fermingarbörn á leið til kirkjuHvítklæddir hópar fermingarbarna gengu að altari Neskirkju bæði í gær og í dag. Það eru mikil forrétindi að fá að fræða og ferma þessi öflugu og vel gerðu ungmenni. Þau er sjálfstæð og heil í nálgun. Það er gott að bera þau í bæn fram fyrir Guð lífs, elsku og styrks. Þessi bæn, sem fylgir hér að neðan, var beðin í fermingarmessunum í Neskirkju þessa helgi. Hún er trinitarísk í snittinu og tekur mið af aðstæðum og tilefni. Áfram…

Guð fjölbreytninnar

10.19 17/1/05

Tilveran er margbreytileg en Guð er einn. Berin á lífstré trúarinnar eru mörg en stofninn einn. Kirkjugreinarnar eru grúi en lífgjafi þeirra þó sá sami. Þessi kirkjubæn spratt fram við byrjun samkirkjulegrar bænaviku og flutt í upphafsguðsþjónustunni. Hún er dýrðarsöngur til hins eina og þrenna, sem allt er, öllu gefur líf, er einingin að baki fjölbreytninni. Áfram…

Litania og samkirkjulegar bænir

09.53 17/1/05

Fulltrúar kirkna í Slóvakíu undirbjuggu efnið, sem notað er á bænaviku um allan heim. Meðal efnis eru ýmsar bænir, s.s litanía, ákall til Guðs um hjálp og lausn. Litanían segir hjálparsöguna í fyrstu persónu og bænin því innlifuð máttarverki Jesú Krists. Þar með verður Guðsverkið miðlægt og dregur algerlega fram hvað hið kirkjulega er og setur kirkjudeildirnar í rétt samhengi. Áfram…

Þú Guð eilífðar – vitja tímans barna

16.16 2/1/05

Þú Guð sem skapar tíma. Í þinni hendi eru stundir og ár, ævi og kynslóðir. Gef okkur mönnum viturt hjarta. Vitja sköpunar þinnar. Tak þau í þitt fang, sem látið hafa líf í flóðum í Asíu. Vitja þeirra sem syrgja og gráta. Styrk þau er hjúkra, hugga og bjarga. Áramótabænin við árslok 2004 spratt upp í skugga hörmunga og kvíslaðist inn í ársuppgjör frammi fyrir Guði. Áfram…

Dýrð og friður – jólabæn

12.00 26/12/04

“Kenndu okkur að sjá þig sem safngler ljósbrota og lífssagna okkar allra. Kenndu okkur að verða svo full sjálfsþekkingar og hugrekkis, að við getum opnað fyrir þér svo þú megir fæðast daglega í lífi okkar.” Þessi eftirfarandi fléttubæn spratt fram á jólum 2004 og var beðin í kirkjunni. Hér yfirskyggir saga jólanna vanda og vonir í nútíma, gefur orð til að túlka frammi fyrir Guði. Áfram…

Beðið fyrir brostnu lífi í Beslan

11.45 8/9/04

Á þessum degi grætur himinn og heimsbyggð. Af hverju æða menn með vopnum gegn vopnlausum börnum, grandalausum foreldrum? Af hverju blóðakur, blóðhús, blóðfólk í Beslan?

Áfram…

Þú, sjáandi Guð

17.08 1/9/04

hvað séðÞú Guð sem sérð.
Sjá þú til okkar, svo við höfum augun hjá okkur. Lyft ásjónu þinni yfir okkur svo við fáum séð. Í hvaða mynd hefur þú skapað okkur? Í hvaða spegli viltu að við skiljum okkur? Í hvaða skjá getum við horft til að sjá okkur rétt. Áfram…

Lífslind

22.16 30/8/04

himinljós í litlum dropaÞú ert vatnaskáldið mikla, sem yrkir og yljar jörð svo vatnið svífur upp í himininn og blæst svo vatnið fellur í öldu niður. Þú veitir því í hringrás heimsins. Þú veitir því í blóðrás lífsins, leyfir því að leika sér í fjallstoppum, skoppa niður stalla og milli steina, faðma aðrar bunur, sameinast, verða fljót og mynnast við hafið, endurvarpa ljósið þitt í morgunsólinni. Áfram…

Síðsumarsbæn

22.37 25/8/04

allir biðjaGuð skapari alls sem er.
Opna þú augun fyrir litum himins og jarðar.
Opna hlustir fyrir unaðshljóðum í umhverfi okkar,
næmi fyrir orðum, sem þú hvíslar Áfram…

Guð sem ert

17.40 22/8/04

á sumarnámskeiði fermingarbarna

Við upphaf sumarnámskeiðs fjölmenntu fermingarbörn 2005 til messu í Neskirkju. Hin almenna kirkjubæn tók mið af tíma og tíð.

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Kenn okkur að vera synir og dætur, sem tala við þig.

Alls staðar ert þú og þar sem við erum vilt þú vera nærri.

Ver okkur nálægur.

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem ert andi kirkjunnar

Gef kirkju þinni fjölbreytilegt og skemmtilegt líf.

Vernda fermingarbörn þessa vetrar, foreldra þeirra.

Gef þeim og fjölskyldunum öllum spennandi undirbúningstíma

Fræðandi og tengjandi fræðslu.

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem ert uppspretta réttar

Við biðjum dómurum speki til réttlátra dóma,

löggjöfum skarpskyggni, ríkisstjórn vits og forseta glöggskyggni.

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem vitjar hinna sjúku

Við biðjum þig að blessa hin meiddu og særðu,

heima, á sjúkrahúsum og nefnum nöfn þeirra í hljóði.

——-

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem talar í náttúrunni

Þökk fyrir hlýju daganna, fegurð himins og jarðar.

Kenn okkur að nema í bylgjum náttúrunnar anda þinn.

Hjálpa okkur til nærfærinnar verndar

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Guð gleði

Þökk sé þér fyrir veisluborð lífsins.

Þú gefur brauð af himni, mettar allt líf.

Þú kemur sjálfur, gefur brauð að brjóta, Lof sé þér.

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Hjónavígslubæn

18.48 10/7/04

beðið fyrir brúðhjónumGef þeim hlýjar hendur, sem kunna að stjúka lauflétt, líka tár af hvörmum, þunnt eyra sem nemur kvíða og vanmátt og vit til að þekkja mörk. Við undirbúning hjónavígslu í 10. júlí 2004 varð til þessi bæn. Áfram…

Þú sem ert góður Guð og besta móðir

14.40 3/7/04

Ghirlandaio útför

Við kistulagningu bið ég ekki bænir af blaði. Eftir ritningarlestur eru aðstandendur kallaðir fram, mynda hring um kistu hins látna og taka höndum saman. Ég leiði síðan bænagerðina. Þó bænirnar séu ekki lesnar af blaði er ég ávallt búinn að undirbúa þær. Hér er dæmi um bæn frá kistulagningu á árinu 2003. Bænin varð lengri en þessi, sem hér fer á eftir, en stofninn er sá sami. Hin látna var elskuleg kona og hafði rækt móðurhlutverk sitt sérstaklega vel.

Guð sem ert góður og besta móðir.

Þökk fyrir lífið sem þú gefur,

Þökk fyrir lífsgleðina, fólk og gleðina.

Þökk fyrir náttúruna líka þegar hún grætur svo sárlega eins og í dag.

Þökk fyrir gæskuna og umhyggjuna sem þú sýnir okkur.

Þökkum fyrir NN.

Frammi fyrir þér köllum við mynd hennar í huga,

kenndu okkur að staldra við gleðiefnin og það sem hún gaf.

Kenndu okkur að staldra við ánægjulegu minningarnar,

Þökkum fyrir vinnu hennar, hlátrana, umhyggjuna,

vinnuna hennar, dansandi spor hennar í lífinu,

matinn sem hún gaf svo mörgum,

verkfýsina og þakklætið – gáskann.

Vernda fólkið hennar allt:

Dæturnar hennar, barnabörnin hennar, tengdasynina hennar,

systkinin hennar, vinkonur og frændgarð.

Líkna þeim í sorg þeirra,

Við biðjum þig að blessa NN,

Þökk fyrir að þú tekur hana í þinn faðm, varðveitir sál hennar.

Við felum þér hana um alla eilífð.

Þökk að hún má fá að gleðjast og hlægja í himni þínum

þar sem er gleði, fögnuður ávalt.

Því þú ert Guð gleðinnar og lífsins.

Allar bænir felum við í þeirri bæn sem Jesús kenndi og biðjum saman.

Faðir vor…

Bæn á bænadegi

16.05 23/5/04

Bænir handbókar presta er mikill fjársjóður. Ekkert ríkidæmi má hefta og kúga lífið. Bænirnar í handbókinni eru ekki lögmál, sem þjónar kirkjunnar verða að hlýða og hafa yfir. Í anda bæna handbókar er ég í seinni tíð farinn að semja eða biðja nýjar bænir.

Hér á eftir er almenn kirkjubæn frá bænadeginum fyrir viku síðan. Eins og allt, sem sagt er eða beðið í kirkju, er bænin eign hennar og má endurnýta. Það má nota þessa bæn og flytja í kirkju, ef andinn leiðir einhvern kirkjuþjón til þess. Orð í kirkjunni eru eign kirkjunnar. Bænir í kirkjunni eru áköll allrar kirkjunnar.

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Kenn oss að vera synir og dætur, sem tala við þig.

Kenn oss að hræðast ekki í návist þinni.

Kenn oss að umgangast þig með heilindum,

í verkum og vinnu, við eldhúsborð, á ferðalagi.

Alls staðar ert þú og þar sem við erum vilt þú vera nærri.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn heyr vora bæn

Guð sem ert líf kirkjunnar

Úthell anda yfir alla þjóna hennar.

Vér biðjum fyrir starfsfólki, barnastarfi.

Vér biðjum fyrir kirkjuvörðum og tónlistarfólki.

biskupum, prestum, sóknarnefndarfólki,

öllum þeim sem þjónustu gegna í kirkju þinni.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn heyr vora bæn.

Guð sem elskar fólk

Vér biðjum þig að blessa æsku þessa lands.

Ver með oss í uppeldi þeirra.

Gef þeim staðfestu, vilja og góð og lífvænleg gildi,

svo þau megni að afneita og sneiða hjá öllu sem eyðir og skemmir.

Gef að vér mættum vera þeim öflugar og góðar fyrirmyndir.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn heyr vora bæn.

Guð sem ert uppspretta réttar

Vér biðjum dómurum speki til réttlátra dóma,

löggjöfum skarpskyggni og ríkisstjórn vits.

Vér biðjum þig að gefa forseta og öðrum þjónum almennings bæði vernd og þjónustuanda.

Vernda þjóðina.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem sem vitjar hinna sjúku

Vér biðjum þig að blessa hina meiddu og særðu,

heima, á sjúkrahúsum og nefnum nöfn þeirra í hljóði.

——-

Vér biðjum fyrir hinum lánlausu í samfélaginu.

Kenn oss að heyra.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem talar í náttúrunni

Gef oss vitund um fegurð daggardropa,

blómknúppa, grasnálar, opnandi brums,

eggjahljóðandi fugla. Kenn oss að nema í bylgjum náttúrunnar anda þinn.

Kenn oss að anda í lífs- og verndar-takti þínum.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn, heyr vora bæn.

Guð veislu og gleði

Þökk fyrir trú, von og kærleika.

Þökk sé þér fyrir veisluborð lífsins.

Vér biðjum og vér öðlumst.

Þú gefur brauð af himni, mettar oss alla daga.

Þú kemur sjálfur, gefur þig og þar með allt, gefur oss brauð að brjóta.

Lof sé þér.

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn. Drottinn, heyr vora bæn.

Játum syndir vorar og lifum í kærleika og sátt við alla menn….

Almenn kirkjubæn á bænadegi. Neskirkja 5. sd. e páska 2004

·

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli