sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Limebakaður kirkjulax · Heim · Skálholtsjárnið »

Ásta Sveinsdóttir 1942-2010

Sigurður Árni Þórðarson @ 12.24 3/1/11

mamma 5Ástu þótti gaman í berjamó, horfa niður í lyngið, niður í furðuveröld lita og forma, finna lyktina, ilm jarðar umleika sig, snerta litlar svartar perlur lyngsins og færa þær síðan í ílát. Ásta sótti í sveitina sína, fór þegar hún gat og henni þótti berjatíminn skemmtilegur. Hún fór á berjastaðina sína, sem hún gerþekkti. Berjatínsla er ekki sálarlaus vinna, heldur fremur að hverfa til þess stóra náttúrusamhengis, sem við erum öll sprottin úr, hverfa aftur í faðm sem heldur áfram að gefa af sér til styrktar lífinu. Ásta kunni þessa list berjatínslu. Hún kunni að beita fingrum af alúð, losa um ávöxt lyngsins með fínleika – án þess að merja, valdi það sem var þroskað, og náði án þess að skemma móðurplöntu og án þess að nokkuð rusl fylgdi með.  Ásta gat farið með berin sín beint frá móa og dengt þeim í pottinn til að sulta.

Það var skemmtilegt að hlusta á börnin hennar Ástu og mann hennar segja frá berjaferðunum hennar. Gleði kom í augu þeirra þegar þau minntust þessara yndisstunda. Allir, sem hafa farið í berjamó, á góðum degi, fundið til tengslanna við mold og land og haldið svo heim með mikla uppskeru vita hversu gefandi slík iðja er, ekki aðeins fyrir munn og maga heldur ekki síður fyrir anda og heilbrigði sálar. Góð berjaferð verður oftast líka einhvers konar íhugunarferð. Berjatínsla er eins helgiathöfn og atlot. Ferð í berjamó er eins og líking um mennskt líf. Allir menn eiga að bera ávöxt, skila sínu, lifa vel og með góðu móti. Ætlumst við ekki til þess að samfélag okkar, hvort sem það er nú samfélag norður í Fljótum eða í Reykjavík beri ávöxt? Er það ekki köllun okkar, skylda okkar að skila okkar til framtíðar og án þess að skemma eða ganga á höfuðstólinn? Þessa speki þarf að virða og sinna.
Jesús og Ásta hefðu lengi getað talað saman um berjatínslu og fleira einnig! Jesús talaði mikið um gang náttúrunnar, tók dæmi af gróðri jarðar, fuglum og lífsfyrirbærum. Hann benti vinum sínum á ávaxtatrén og minnti á að þegar ekki er borinn ávöxtur fer illa. Jesús hvatti til að við gættum að lífi okkar, sinntum köllun okkar, ynnum vel að þroska okkar og skiluðum vel af okkur. Og Ásta hafði ekki aðeins áhuga á fíngerðum ávexti jarðar, heldur bar sinn ávöxt í afstöðu og kærleika til annarra.

Upphaf og fjölskylda

IMG_3009Ásta Sveinsdóttir var sumarbarn, fæddist 25. júlí árið 1942. Foreldrar hennar voru Kristín Þorbergsdóttir og Sveinn Pálsson. Þau bjuggu á Sléttu með allan hópinn sinn, en Ásta fæddist reyndar á Bjarnargili og sést glitta í túnin á einni myndinni í sálmskránni, sóleyjarbreiðuna til hægri við Sléttubæinn.

Ásta var næstelst systkinanna. Elstur var Ólafur og Páll var svo þriðji í röðinni. Síðan kom Bragi, þá Karl og Þorbergur var yngstur. Páll og Karl lifa systkini sín.

Ásta var eina stúlkan í hópnum. Af móður sinni lærði hún ljúflyndi, dugnað og listir heimilishalds. Eins og jafnan í sveitum lærðu systkinin snemma að taka til hendi og taka þátt í bústörfum eftir hrynjandi árstíða. Þó Ásta væri eina stúlkan í systkinahópnum var hún engu minnni vinnubógur en bræðurnir. Hún var t.d. ekki síðri í dráttarvélarakstri en þeir.

Ásta sótti skóla í Ketilási og var góður nemandi. Hún fór alla tíð vel með bækur sínar og dót og var öðrum börnum til fyrimyndar.

Norðlensk sumur eru undursamleg með náttleysu og fögnuði. Á uppvaxtarárum Ástu var fjörið á Íslandi hvað mest í nágrenni Fljótanna, norður á Siglufirði. Síldarárin voru stórkostleg, norðlenskir bæir urðu verstöðvar og miðstöðvar þjóðlífs í nokkra mánuði á ári. Ungt fólk sótti í vinnu og fjörið – og líka Ásta. Hún var bara unglingur þegar hún byrjaði að vinna á síldarplani á Siglufirði, vann sér inn peninga, sem komu auðvitað að gagni bæði henni og fjölskyldu. Ásta var forkur til vinnu og hafði geð í sér til átaka og dugnaðar. Hún minntist þessara ára með gleði og átti meira segja alla tíð hnífinn sem hún skar síldina með, en blaðið var orðið þunnt eftir notkun í hálfa öld. Siglufjörður varð Ástu alla tíð ævintýrastaður. Stella Einarsdóttir, er meðal vina hennar á Siglufirði og hefur beðið fyrir samúðarkveðjur sínar til fjölskyldunnar.

Systkinin á Sléttu potuðust upp og Ásta hleypti heimdraganum og hélt að heiman. Hún var m.a. í Vestmannaeyjum um tíma, var heimilshjálp í Reykjavík og vann á farsóttarhúsinu. Svo eignaðist Ásta soninn Svein Ingvar með Hilmari Jóhannssyni. Sveinn fæddist 26. nóvember árið 1964. Ásta var ein med drenginn og braust með hann norður í Fljót skömmu fyrir jól. Þar var vel við þeim tekið og þar átti Sveinn Ingvar sér svo örugga heimastöð þegar Ásta hélt til vinnuferða, vestur í Reykja í Hrútafirði, suður í Borgarfjörð og víðar. Hún var viss um að vel væri farið með hann á Sléttu og hann naut góðs atlætis.

Árið 1971 fór Ásta suður með drenginn sinn. Hún vann um tíma í kexverksmiðjunni Frón, var einnig á saumastofu og saumaði kvenfatnað og var í Njarðvík um tíma á frystihúsi. Ingvar stækkaði og Ólafur, móðurbróðir hans, var honum sem góður faðir og tók hann meira segja inn á heimili sitt í Hátúni um tíma.

Þórður og stækkandi fjölskylda
Og svo kom Þórður – Hann var þjóðhátíðargjöfin, sem Ásta hlaut árið 1974. Þórður settist við borð hjá dömunum, sem voru að skemmta sér og bauð þeim svo í bíltúr daginn eftir ball. Ásta var í þeim hópi. Meira segja Ingvar fékk að fara með. Samband þeirra Ástu þróaðist til heilla og varð meira en bara leiðin yfir Hellisheiði og í kaffi í Hveragerði. Þau giftu sig svo hér í þessari kirkju, Neskirkju.

mamma 3Ásta og Þórður þroskuðu vel samband sitt, styrktu hvort annað og efldu. Þórður vildi verða við hennar beiðnum og þörfum og hún gaf honum þá festu, fínleik og drift, sem hann hafði þörf fyrir. Hún var reiðubúin að taka á móti drengjunum hans af fyrra hjónabandi, sem leituðu til pabba síns.

Þegar Ásta og Þórður kynntust bjuggu mæðginin á Mánagötu en Þórður á Háteigsvegi, en svo fóru þau að leita sér að hentugu húsnæði og fluttust í Bakkavör á Seltjarnarnesi.

Birgit fæddist þeim Þórði 28. janúar 1975 og hér var dóttir þeirra skírð. Þegar Birgit var á öðru ári flutti fjölskyldan vestur á Flateyri. Ekki þótti Ástu eins rúmt um sig milli vestfirsku fjallanna eins og heima í Fljótum. En þau urðu lengur fyrir vestan en þau óraði fyrir og voru í átján ár. Börnin tengdust því Flateyri, vestfirskri lífsbaráttu og menningarsögu sterkum böndum. Og Ásta eignaðist í fólki og umhverfi vini og samhengi, sem hún naut æ síðan. Auk heimilis- og uppeldisstarfa vann Ásta í frystihúsinu, þar sem Þórður átti sér líka starfsstöð. Hún vann þó lengst á elliheimilinu.

Fjölskyldan bjó á tveimur stöðum á Flateyri og þar var líka pláss fyrir Þórðarsyni þrjá. Þeir synir Þórðar og fóstursynir Ástu eru: Kristinn Rúnar, Guðmundur Þorkell og Þorlákur Víkingur. Guðmundur og börn hans, Emma og Freyr Ívar, eru í Svíþjóð og biðja fyrir kveðjur. Þá eru Kristinn Rúnar og Doris í Danmörk og biðja fyrir kveðjur sem og Jenný, sambýliskona Ingvars, í Tælandi.

Sveinn Ingvar eignaðist soninn Kristján Ólaf og hann átti í ömmu sinni tryggan bandamann. Sambýliskona Ingvars er Wissane Inson. Maður Birgit er Lárus Sigfússon. Ásta tók á móti tengdabörnunum og reyndar öllu fólki með hlýju og natni.
Ásta og Þórður stóðu alla tíða vel saman, voru samhent og áttu auðvelt með að tala um gleði og áhyggjumál sín, fjármál og fólk og þau tóku sameiginlegar ákvarðandir í öllum aðalmálum. Koddahjalið var því fjölbreytilegt og mikilvægt. Svo kom að því að þau tóku ákvörðun að selja húsið sitt og flytja suður. Þau fóru fyrst í Hafnarfjörð og Ásta fór að vinna á Sólvangi.

Um tíma bjuggu þau Ásta í Flúðaseli, voru líka upp í Grafarholti en fóru svo í Hraunbæinn þar sem þau bjuggu síðustu árin. Þórður fór að vinna á Dalbraut 27 þegar hann kom suður. Þar voru Sléttuhjónin úr Fljótunum fyrir svo Ástu þótti gott að fá vinnu á Dalbraut líka svo hún gæti verið nærri sínu fólki. Þar unnu þau Ásta og Þórður þar til þau hættu launavinnu vegna aldurs. Þá höfðu þau næði til að vera saman og styðja hvort annað. Í sumar veiktist Ásta af lungnasjúkdómi, sem ágerðist og dró hana að lokum til dauða 26. desember síðastliðinn.

Ásta var sumarbarn og svo þegar himininn opnaðist og Jesúbarnið kemur í heiminn fer hún inn í himininn.
Hinar eilífu lendur

“Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá” eru kunnuleg orð Jesú í Fjallræðunni. Lyngið norður í Fljótum mun halda áfram að bera ávöxt til gleði fólki framtíðar. En fingurnir hennar Ástu munu ekki leika um fíngerða sprota og finna svört aðalber. En hún lifir í minningu ykkar, bros hennar, elja og umhyggja, líf í þjónustu og elskusemi. Farðu vel með minningu um Ástu. Leyfðu henni að hvetja þig til ávaxtaríkra dáða. Lærðu að falla í fang náttúru, lærðu að iðka ástríki gagnvart fólki og lærðu svo að falla inn í fang eilífðar þar sem berin eru bæði stór og mörg, þar sem allt er gott, engin veikindi, ekkert sem hrjáir bræður og vini, foreldra og frændgarð. Á Sléttu himinsins má hún búa með sínu fólki. Þú mátt trúa því að þar er allt gott og heilt. Þar tekur Jesús Kristur á móti og kennir hvernig berjalendur himins eru.

Guð geymi Ástu Sveinsdóttur, Guð geymi Þórð, Svein Ingvar, Birgit, tengdabörn, barnabarn, systkini, ykkur öll ástvini og vini.
Amen.

Útför Ástu Sveinsdóttur frá Neskirkju 3. janúar, 2011. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2011-01-03/asta-sveinsdottir-1942-2010/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli