sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Ræktun ávaxtatrjáa á Íslandi · Heim · Endir eða upphaf? »

Valhöll eða „paradís“

Sigurður Árni Þórðarson @ 08.14 3/4/10

Stríð eða friðurÍ fornum sið var haft fyrir satt að vopndauðir menn færu til Valhallar en risu síðan upp að morgni og berðust á ný. Vopndauði var þáttur í ímynd hetjunnar sem átti sér trygga endurkomu. Hrynjandi daganna var hin sama. Allt hneig í sama far, hringrás og endurreisn var tryggð. Lífið sigraði dauðann en til hvers? Er slík stríðshyggja eftirsóknarverð, vopnaglamur, hreystisókn, blóðsúthellingar, dauði hetju sem vaknar síðan til sama leiks á nýjum morgni, dag eftir dag?

Endurnýjun í stað endurtekningar

Páskar eru önnur mynd endurnýjunar. Á páskum fagna kristnir menn sigri lífsins. Þar er ekki hrósað sigri hetju sem gengur til orustu heldur þess sem ögrar ofbeldinu með því að leggja niður vopn. Páskar eru hátíð sem hyllir lífið og allt sem stuðlar að eflingu þess. Kristinn upprisuboðskapur gengur út á það að allt verði nýtt. Ekkert er sem áður. Hringrás ofbeldis og eiginhagsmunahyggju er rofin. Ekki skal lengur haldið í fals og lygi. Kristinn upprisuskilningur umbreytir öllu. Ekki er sóst eftir meiru af því sama heldur upprisu til nýs lífs. Páskar opna veröldina og bjóða mönnum til róttækrar endurskoðunar á lífsháttum og gildum.

Hvernig veröld viljum við?

Á örlagatímum í sögu okkar reynir á gildi. Hverskonar veröld viljum við byggja okkur og börnum okkar? Viljum við lífshætti af því tagi sem Jesús Kristur tjáði eða fýsir okkur frekar að leika víkinga í útrás? Því miður minnir samtíðin fremur á forn-heiðinn hugsunarhátt en kristinn. Svo virðist að æ fleirum sé það keppikefli að komast í gamla gírinn, rísa upp og berjast með sömu vopnum og áður. Boðskapurinn er einfaldur: Virkjum, byggjum orkufrek iðjuver, stuðlum að hergagnaframleiðslu og höldum í nýja útrás, nú með aðeins beittari vopnum og betri markaðssókn. Að kvöldi skulum við ekki falla. Markmiðið virðist vera það eitt að þjóðin nái sér á strik að nýju án þess að nokkuð breytist í grunninn, án þess að nokkuð sé hugsað upp á nýtt. Hvar örlar á nýrri stjórnarskrá, auknu lýðræði, öðrum samtalsmáta, breyttri afstöðu til náungans, til landsins? Hvar bregður fyrir nýrri birtu? Er Valhöll virkilega okkar sögustaður og því engin þörf fyrir páskasól og boðskap um að lífið lifi og fallnir menn megi breytast til hins betra

Stöðnun frekar en endurnýjun

Svo virðist sem margir vilji ekki rísa upp til nýrra og betri hátta en vilji frekar endurtaka leikinn frá í gær. Þetta má ekki viðgangast. Við þurfum að vera tilbúin til að hugsa hlutina upp á nýtt. Við eigum að fagna hinu nýja lífi, tileinka okkur nýjan hugsunarhátt, nýja samskiptahætti. Við getum ekki boðið komandi kynslóðum upp á meira af því sama.

Anna Sigríður Pálsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sigrún Óskarsdóttir, Sigurður Árni Þórðarson og Sólveig Anna Bóasdóttir.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2010-04-03/valholl-eda-%e2%80%9eparadis%e2%80%9c/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli