sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Málaskrá vegna kirkjuþingskosningar 2010 · Heim · Lík, líkn og líf »

Snjóbolti og iðrunarganga

Sigurður Árni Þórðarson @ 12.35 12/3/10

DSC02876Snjóbolti flaug og lenti beint í höfðinu á stelpu úr húsinu hinum megin götunnar. Hún veinaði og beygði sig svo niður. Svei mér ef hún hafði ekki meitt sig. Skotmaðurinn fylgdist með þegar grátur afmyndaði andlit stúlkunnar og líkama. Ópin bárust milli húsa. Þá hljóp ég í hvarf og íhugaði vandann. Mér fannst leitt ef hún hefði skaðast. Það var ekki tilgangurinn. Jæja, það varð að hafa það, hún hlaut að jafna sig. Svo var haldið til annarra markskota í öðru samhengi.

Mamma tók á móti mér þegar ég kom heim. Hún var alvarleg í bragði, eitthvað hafði komið fyrir. “Sestu niður, vinur,” sagði hún. Hvað var nú í uppsiglingu? Ég setti mig í stellingar og bjóst við hinu versta. “Konan á miðhæðinni á nítján hringdi og var reið. Hún sagði að þú hefðir kastað bolta í höfuð dóttur hennar. Stelpan er í rúminu, jafnvel með heilahristing. Er það rétt að þú hafir meitt hana?” Ekki gat ég neitað því að ég kastaði í stelpuna. Ég reyndi ekki að þræta fyrir enda kunni mamma undabrögðum afar illa. “Jæja vinur. Þakka þér fyrir að segja satt. Nú skaltu vera maður og fara yfir á nítján, hringja bjöllunni, fara upp og biðja stúlkuna að fyrirgefa þér.”

Nú var úr vöndu að ráða! Var þetta refsing eða eitthvað annað? Eitt var að vera skammaður, en mun verra var að þurfa að gera eitthvað í málinu sjálfur. Orðaskammir er hægt að afbera en mun erfiðara að þurfa ganga veg iðrunar. Ég man að ég tók mér langan tíma í að fara í skóna og íhuga stöðu mína og kosti. Það tók drjúga stund að fara yfir götuna. Ég velti vöngum yfir hvort ég ætti að leggja á flótta og hlaupa eitthvað annað. Nei, það var víst ógerlegt því mamma var þarna í glugganum eins og alsjáandi Guðsauga og fylgdist með hverju skrefi. Sjálfsagt vissi hún vel í hvaða baráttu ég átti. Undankomuleiðir voru engar.

Ég skalf þegar ég hringdi bjöllunni. Mamman á nítján var greinilega hissa þegar ég kynnti mig en sagði svo: “Þú mátti koma upp,” sem hljómaði málmkennt í dyrahátalaranum. Ég fór upp brattan stigann og alvarleg kona opnaði dyrnar og rak nefið út. Ég bar upp erindið og var hleypt inn og alla leið að sjúkrabeði. Ég gat ekki betur séð en fórnarlambið í rúminu væri um það bil að hverfa af þessum heimi. Þá setti að mér skelfilegan ótta. Var ég kannski morðingi – gat verið að Dísa væri að deyja? Ég hvíslaði stamandi afsökunarbeiðni. “Hvað segir þú,” var spurt. Ræsking: “Fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að meiða þig svona mikið.”

“Já, allt í lagi, ég skal fyrirgefa þér.” Svo til baka, niður stigann, út um dyrnar og niður tröppur. Því neðar sem ég fór, því meira tærðist angist og samviskubit, en því meira varð af visku til lífs. Snjóboltinn, sem kastað var, kom til baka með þroska. Við erum það sem við vinnum úr lífi og verkum okkar. Iðrun fellur aldrei úr gildi og er forsenda þess okkur sé fyrirgefið sem einstaklingum.

Margir hafa farið á mis við uppeldi til sátta og kunna ekki að ganga á milli húsa og fara þangað sem fórnarlömb þeirra liggja. Stundum skilja menn ekki afleiðingar gerða sinna og geta því ekki beit sér til bóta. Fórnarlömb verða í slíkum tilvikum að vinna með sáttarferli sitt þótt engin sé iðrun ofbeldismannsins. Í slíkum aðstæðum er fyrgefning ekki skylda heldur oft innri þörf, að hleypa sálargreftri út og hreinsa meinin hið innra.

Þegar miklir glæpir hafa verið framdir gagnvart þjóðum og hópum verða mál óleysanleg nema í himnesku samhengi. Í kenningunni um hinsta dóm er líka fólgin von um að Guð leiðrétti óleyst ranglæti og rétti hlut fórnarlamba. Réttur heimsins er mikilvægur og nauðsynlegur en þó takmarkaður. Í trúnni má leita réttar sem ristir dýpra og er fegurri en réttur heimsins.

Í átökum og upplifunum bernskunnar lærði ég að tengsl eru milli verka og viðbragða. Ég átti mömmu, sem var tilbúin að kenna mér lexíur fyrir lífið og siðfræði samskipta. Hún kenndi mér að biðjast fyrirgefningar, þegar ég hafði til þess unnið. Hún kenndi mér líka heilmikið um hvernig Guð vill, að menn vinni sig í gegnum vondar gerðir. Svo lærði ég líka að í lífinu er ekki einfalt bókhaldsuppgjör milli sektar og sýknu, iðrunar og fyrirgefningar. Ég lærði að sjá, að Guð lagar hið vonda og fyrirgefur, sem er okkur til eftirbreytni. Mitt er að lifa vel, vera farvegur fyrirgefningar í smáu og verða þannig til góðs í lífi veraldar. Snjóboltar geta orðið til góðs ef uppalendur leggja elsku til eftirmála. Kennum börnum okkar að skotleiðir elskunnar eru líka leiðir iðrunar og sátta. Í glugganum er Guð.

Þessi pistill birtist í bókinni Fyrirgefning og sátt sem Skálholtsútgáfan gaf út árið 2009.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2010-03-12/snjobolti-og-idrunarganga/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli