sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Ármann Snævarr 1919 – 2010. Minningarorð · Heim · Snjóbolti og iðrunarganga »

Málaskrá vegna kirkjuþingskosningar 2010

Sigurður Árni Þórðarson @ 17.00 9/3/10

blómstrandi kirkjaÉg býð mig fram til þjónustu á kirkjuþingi. Þjóðkirkjan er á tímamótum og verkefni kirkjuþings því mikilvæg og heillandi þjónustumál. Mér sýnist menntun mín og fyrri störf geti nýst til gagns á þeim vettvangi. Ég er nú varamaður á kirkjuþingi. Hér að neðan er málaskrá mín eða þau atriði sem ég hyggst beita mér fyrir og vinna að.

Val á starfsmönnum kirkjunnar
Auka þarf fagmennsku og skilvirkni í ráðningarferli. Huga þarf að heildarþörfum kirkjunnar og hagsmunum sóknarfólks, umsækjenda og vinnuveitenda. Núverandi kerfi þarf að endurskoða og má bæta. Brýnt er að bæta mannauðsstjórn á vegum kirkjunnar. Jafnvel er vænlegt að færa starfsmannamál undir kirkjuráð. Vandkvæði vegna agabrota í kirkjunni og afbrotamála knýja á nýhugsun.

Handleiðsla
Efla þarf faghandleiðslu og koma á trúarlegri handleiðslu starfsmanna þjóðkirkjunnar. Setja þarf markmið áætlunar um handleiðslu og ákvarða umfang.

Guðfræðiskerping
Kirkjan á að þjóna þörfum fólks og ber að vera andlegur leiðtogi í samfélaginu. Ræða þarf áherslur og kenningu gagnvart samfélags- og menningarbreytingum. Fjölgun fólks á Íslandi af ekki-kristinni trú varðar þjóðkirkjuna og krefur hana einnig um stefnu varðandi aukna fjölbreytni samfélagins. Þjóðkirkjan verður að ganga erinda friðar og sátta án þess að tapa stefnu sinni. Þessi mál verður að ræða á kirkjuþingi og taka verður frá tíma til að ræða mikilvæg kenningar- og stefnumál. Kirkjuþing þarf að vera merkingarveita. Starfsreglur sem þingið setur eiga að vera hagnýtt trúarvit og ilmandi, góð guðfræði.

Verkefni út í grasrótina
Færa þarf sem flest verkefni út í söfnuði og prófastsdæmi t.d. með því að kaupa þjónustu af einstökum söfnuðum. Vaxtarbrodda þarf að styrkja með fjárframlögum. Hvetja þarf vinnuhópa í grasrót til starfa og átaka. Tími smáhópanna er upp runninn. Miðstýringarótti sem nú breiðist út í kirkjunni er vondur og þarf að bregðast við honum með aðgerðum.

Starfslýsingar
Ákvarða þarf betur í starfsreglum hlutverk, verkefni og samstarf sóknarpresta, sóknarnefnda, organista, presta, djákna, og annarra starfsmanna. Hlutverk og störf verði betur skilgreind. Samtök sókna þarf að stofna vegna vinnuréttarmála sem og til sparnaðar (t.d. bókhald) og skýrleika. Þjóðkirkjan þarf að setja sér vinnumarkmið og vera góður vinnuveitandi.

10 nýja djákna í þjóðkirkjunni
Gagnvart hruni þarf kirkjan að iðja og biðja, sækja en ekki hörfa. Kærleiksþjónustu kirkjunnar þarf að efla. Legg til að kirkjan stofni tíu ný djáknaembætti og sæki fé til reksturs embættanna frá ríki og sveitarfélögum.

Fjárnotkun til lífs
Ná þarf sátt um fjárnotkun sókna þannig að fjársterkari sóknir leggi fram ákveðið hlutfall sóknargjalda til eflingar safnaðarstarfs. Unnið verði að markvissri fjárhagsáætlun Þjóðkirkjunnar.

Lýðræðis+ í kirkjunni
Efla má virkni og kalla þarf fleiri til starfa í kirkjunni. Takmarka verður tímalengd setu fólks í stjórnum og stofnunum. Heimila þarf í starfsreglum að velja í sóknarnefndir og til kirkjuþings við almennar kosningar, t.d. sveitarstjórnarkosningar. Kjördæmi ættu að stækka og jafnvel ætti að gera landið að einu kjördæmi. Tryggja verður að þéttbýli og dreifbýli hafi fulltrúa og í eðlilegu hlutfalli við íbúafjölda.

Samkirkjumál og kirkjuaðild
Þjóðkirkjan á að hafa frumkvæði að samstarfi við fríkirkjur, t.d. með því að efna til sambands evangelísk-lúterskra kirkna á Íslandi. Ein hlið þessa máls er aðgengi fríkirkna að sjóðum þjóðkirkjunnar. Opna á fríkirkjum leið að þeim og að uppfylltum skilyrðum.

Trúfélagaskráning
Breyta þarf reglum um trúfélagaskráningu og herða m.a. til að sporna við að þriðji aðili geti séð um breytingu á trúfélagskráningu fólks.

Kynjakvótar – jafnréttismál
Huga þarf áfram að jafnréttismálum í kirkjunni, við val á starfsfólki og myndun stjórna og ráða. Skilgreina mætti kynja- og aldurs-dreifingu, t.d. með fléttulistum. Ég legg til kynjakvóta á öllum stigum. Setja þyrfti reglur um aldursdreifingu ekki síst til að tryggja að að ungt fólk verði kallað til starfa við stjórn kirkjunnar.

Umhverfismál
Unnið verði áfram með umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar og hleypt verði af stokkum kirkjulegu umhverfisátaki sem verði meira en fróm, óbindandi stefna. Varði bæði verkefni, helgihald og guðfræði. Norrænu kirkjurnar hafa miklu að miðla í þessu efni.

Fræðsluáætlun
Áætlunin verði unnin til enda með þjónustu, hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi. Efla þarf eftirfylgd skírnarinnar og efla þarf sömuleiðis fermingarfræðslu. Fermingartoll þyrfti að leggja af. Tryggja þarf að prestar missi þó ekki lögtekjur.

Biskupsembættið – skerpa hlutverk
Af biskupi verði létt formennsku í kirkjuráði. Vægi vígslubiskupa verði aukið og hlutverk þeirra skilgreind. Biskupar hafi tillögurétt og málfrelsi á kirkjuþingi og í kirkjuráði en ekki atkvæðisrétt. Ég sakna biskupsins míns og legg til að biskupar fái frelsi og næði til að sinna trúarlegu hirðishlutverki fremur en sogast í stjórn framkvæmda og rekstrar.

Frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga
Í ljósi ofanritaðs tel ég að breyta þurfi nokkrum ákvæðum frumvarps til þjóðkirkjulaga. Ég mun beita mér að kirkjuþing taki það til nýrrar skoðunar. Samband ríkis og kirkju verður að skoða og þjóðkirkjan þarf að hafa frumkvæði að þróun sambúðarinnar.

Símenntun
Æ fleiri starfsmenn kirkjunnar njóta nú fræðslu til stuðnings starfa sinna. Afar margt gott hefur verið unnið varðandi símenntun kirkjunnar síðasta áratuginn og æ fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi hennar. Nú er komið að stefnumótun málaflokksins.

Styrking starfssvæða
Samvinna prestakalla þarf að aukast, styrkja þarf tengsl og samvirkni sérþjónustu og sókna. Til að svo verði má veita ýmsa hvatastyrki til að aðilar sjái sér hag í samvinnu. Stækka þarf prófastsdæmi og efla vígslubiskupsdæmi. Héraðssjóðir hafa um margt reynst vel en hafa líka annmarka. Lagt er til að héraðssjóðir verði lagðir niður en styrkari sjóðir, stiftsjóðir, verði stofnaðir.

Stefnumörkun kirkjunnar
Ræða þarf opinskátt af hverju þjóðkirkjan nýtur æ minna trausts. Hvað er það í skipulagi, guðfræði, stjórnun og starfsháttum sem veldur? Stefnumörkunar er þörf sem fjörgi líf safnaðanna og efli starfsmenn til dáða, gleði og þjónustu. Meta þarf kosti og galla stefnumörkunarferlis kirkjunnar í áratug. Margt frjótt kom fram en átti sér ekki fang í starfi safnaða.

Kirkjulíf í nútíma varðar þjónustu og líf. Þjóðirkjan er svo sannarlega á krossgötum. Til hennar og stofnana hennar er kallað hátt og snjallt. Ég býð mig fram til kirkjuþingsstarfa með opnum huga og löngun til þjónustu.

Sigurður Árni Þórðarson

url: http://sigurdurarni.annall.is/2010-03-09/malaskra-vegna-kirkjuthingskosningar-2010/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli