sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Óskir á aðventu · Heim · Jólin – friðarboðskapur eða ævintýri? »

Kalkúnn – jólamaturinn okkar

Sigurður Árni Þórðarson @ 14.24 22/12/09

kalkúnn fyrir jólinJólin eru okkar stóra þakkargerðarhátíð og tilefnið er himingjöfin besta. Ekkert annað en góður matur hæfir. Uppskriftin, sem kom úr gömlu jólablaði Mbl, er ætluð átta manns. Það er ljómandi að eiga afgang á jóladag og svo er hráefnið gott í böku. Hafið hugann við eldamennskuna, en beikonvafningurinn gerir gott hráefni að dásamlegum kosti. Athugið að byrja þarf á matreiðslunni snemma á aðfangadegi, vegna langs steikingartíma - og gleði við langa sósugerð!

4-5 kg kalkúnn
3 hnefafylli af ferskum sveppum
½ hvítlaukur pressaður
2 stilkar sellerí
250 g beikon til sneiðingar + 3-4 bréf til “klæðningar”
5 sneiðar brauð
2 msk estragon
200 g rjómaostur
1/2 tsk salt

Beikon, ca 250 g er sneitt og látið krauma í potti. Skornu sellerí er bæt út í, þá sveppum og síðast hvítlauknum, 1 msk estragon og salti. Hrærið allt saman og líka rjómaostinn. Hiti minnkaður. Þegar blandan er orðin bragðgróð er brauðið rifið saman við en skorpan ekki notuð. “Grauturinn” lagður til hliðar.

Kalkúnninn er hreinsaður og innmatur settur í vatn með pipar, salti 1 msk estragon og beikonflísum, og allt soðið saman. Fuglinn er kryddaður að innan með salti og pipar. Grauturinn – fyllingin er sett í kalkúninn og hann síðan lagður í smurða ofnskúffu sem búið er að krydda með salti og piparblöndu.

Kalkúnninn er klæddur eða hulinn með beikonsneiðum og opið er einnig hulið með beikoni. Vængir og leggir einnig vafðir með beikoni. Þar sem kalkúnakjöt er fremur magurt kemur beikonið í veg fyrir að kjötið þorni. Fuglinn er settur í 200 gráðu heitan ofn og hitinn er lækkaður eftir 10 mínútur í 180 gráður. Ekki spara beikonið, mörgum finnst stökkt beikonið gott. Óhætt er að treysta upplýsingum um að steikingartími sé 50 mínútur á hvert kíló.

Til að athuga hvort fulginn er tilbúinn er hægt að stinga hann þar sem hann er þykkastur. Ef safinn er tær þá er nægilega steikt. Ef beikonið verður ískyggilega dökkt er ráð að bregða álpappír yfir fuglinn.

Waldorfsalalat
Waldorfsalat er nauðsyn! Epli sellerí, græn vínber, sýrður og þreyttur rjómi. Ef valhnetur falla ekki í kramið er hægt að nota rifnar möndlur í staðinn. Síðan er gott að hafa bakaða kartöflubáta með. Þeim er raðað með hýðið niður í eldfast ósmurt mót. Saltað yfir og haft í ofninum síðustu 40-50 mínuturnar sem fuglinn er að steikjast. Rifsberjahlaup tilheyrir réttinum og árstíðinni.

Sósan
Kalkúnninn er tekinn úr ofninum og settur á heitt fat. Slettu af vatni hellt í soðið í ofnskúffuna, skafið upp úr plötunni bragðgjöfum. Öllu hellt í pott gegnum sigti og fitu fleytt ofanaf. Bragðbætt með pipar og estragoni og síðan soðið með rjóma og etv. lögg af rauðvíni. Á jólunum er um að gera að nota þeyttan rjóma og setja hann neðst í sósuskálina og hella sósunni yfir. Ég er hættur að nota innmatinn – mér hefur aldrei þótt það gefast vel – ég fer aðrar leiðir í sósum ef ég vil breyta til. Sósugerð með svona mat er afar einstaklingsbundin og allir ættu að þora að fara eigin leið.

Gleðileg jól.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2009-12-22/kalkunn-jolamaturinn-okkar/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli