sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Glaðvakandi · Heim · Hvert viljum við fara? »

Á ártíð hrunsins

Sigurður Árni Þórðarson @ 12.06 7/12/09

Hvert?

Hvaða leið?

Rúmt ár er liðið frá hruni íslenska fjármálakerfisins. Tímamótin eru tilefni ártíðar, en það er minningardagur sem er haldinn þegar ár er liðið frá andláti. Það sem dó var samfélagsgerð byggð á falskri hugmyndafræði. Árið hefur reynst samfélaginu erfitt. Hvert áfallið hefur rekið annað. Skelfileg ný mál hafa ítrekað komið í ljós.

Endurreisn hefur gengið hægt. Hér skal þó ekki lagst á sveif með þeim sem telja að ekkert hafi verið gert. Vandinn sem við er að glíma er slíkur að íslensk stjórnmálastétt hefur aldrei staðið frammi fyrir neinu viðlíka. Stjórnmála- og embættismenn voru ekki undirbúnir og gátu ekki brugðist fumlaust við. Fleira hefur þó verið gert en við munum frá degi
til dags. Það eitt að félagsleg upplausn í kjölfar hrunsins risti ekki dýpra en raun ber vitni sýnir það glöggt.

Hvar er „nýja Ísland“?
Í byltingunni síðastliðinn vetur fæddist draumur um „nýtt Ísland“, gagnsætt og réttlátt samfélag sem reist yrði úr rústum hins gamla. Hugmyndin var að segja skilið við kunningjasamfélagið, samfélag einkavinavæðingar, helmingaskiptareglu, þöggunar og krosseignatengsla.

Ári eftir hrun er það áleitin spurning hvað líði þeirri gagngeru uppstokkun sem búsáhaldabyltingin krafðist. Er „nýtt Ísland“ í vændum eða erum við á leið í gamla farið?

Hvert stefnum við ef skuldir útrásarvíkinga verða afskrifaðar án þess að þeir missi fé í skattaskjólum, eignarhald á fyrirtækjum, meirihluta í hlutafélögum, gjafakvóta eða annan feng frá dögum „hins gamla Íslands“? Það væri merki um að „hið gamla“ hafi borið sigurorð af „hinu nýja”. Verði stjórnmálaleiðtogum sem þjóðin hafnaði veittar vegtyllur að gömlum sið er það merki um hið sama. Ef embættismenn sem rannsóknarnefnd Alþingis sýnir að hafi brugðist verða að nýju lykilpersónur í samfélaginu bendir það enn í sömu átt. Hrunið afhjúpaði gerðir kaupahéðna. Bylting og kosningar kváðu upp dóm yfir stjórnmálamönnum. Í tilfelli embættismanna verðum við að bíða skýrslna sem birtast á nýju ári.
„Hið nýja Ísland“ verður ekki til án uppgjörs og raunverulegra sinnaskipta. Það verður sumum sárt. Við skulum þá hafa hugfast að sársauki í íslensku samfélagi er ekki öllum ókunnur – til dæmis ekki þeim sem að ósekju urðu fyrir höggi hrunsins. Krafa um uppgjör verður þó að miða að réttlæti en ekki hefnd.

Gleðileg breyting
Lítum þó ekki framhjá því að sitthvað hefur breyst. Víða má sjá merki samstöðu. Fé safnast fyrir góð málefni. Fyrirtæki og einstaklingar leggja kirkjum og mannúðarsamtökum lið. Sjálfboðaliðar koma til starfa í hjálparstarfi innlendu sem erlendu. Miklu fleiri taka til máls en áður. Fólk hræðist ekki eins og áður að kveða upp úr með það hvað því finnst rétt og hvað rangt. Enginn er þess lengur umkominn að hafna því að mál séu á dagskrá.

Á sama tíma hefur traust á valdastofnunum minnkað. Það er að sumu leyti gott. Það er ætíð hættulegt að treysta valdi í
blindni. Á hinn bóginn þarf fólk að geta treyst helstu stofnunum samfélagsins, geta treyst réttlátri málsmeðferð lögreglu og dómstóla, treyst því að engir annarlegir hagsmunir stjórni gerðum þingmanna, treyst því að eftirlitsstofnanir séu í raun sjálfstæðar. Til þess að öðlast traust verða almannastofnanir að sýna í verki að þeim sé treystandi. Ódýrt traust er ekki lengur til.

Krafa um samstöðu
Á ártíð hrunsins er þess krafist af stjórnmálamönnum að þeir slíðri sverð og vinni sem samstilltur hópur að lausn þeirra mála sem á okkur hvíla. Þeir láti stjórnast af einlægum vilja til uppbyggingar, virðingu fyrir pólítiskum andstæðingum, gagnkvæmu trausti og rödd samviskunnar. Þegar við merkjum að þeir vinni með þetta að leiðarljósi munum við fylgja þeim jafnvel um grýtta slóð. Það er eina leiðin í átt til „nýja Íslands“.

Þótt á móti blási megum við aldrei slá af kröfunni um félagslegt réttlæti og velferð öllum til handa, einkum þeim sem standa höllum fæti. Stöndum ennfremur vörð um landið, náttúru þess og auðlindir. Krafan er sú að framundan sé betra og réttlátara samfélag en það sem við kvöddum fyrir ári.

Anna Sigríður Pálsdóttir
Arnfríður Guðmundsdóttir
Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Pétur Pétursson
Sigrún Óskarsdóttir
Sigurður Árni Þórðarson
Sólveig Anna Bóasdóttir

url: http://sigurdurarni.annall.is/2009-12-07/a-artid-hrunsins/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli