sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Heimsendir í nánd? · Heim · Háski, gáski og köllun manns »

Biblían er matarmikil

Sigurður Árni Þórðarson @ 22.19 23/9/08

Jesús var mikill veislumaður, en hvers konar mat borðaði hann? Hvernig voru veislur Ísaks eða kónganna Davíðs, Salómons og Heródesar? Vitum við eitthvað um þennan mat? Já, í öllum ritum Biblíunnar er eitthvað vikið að mat, borðhaldi eða fæðutengdum efnum. Rannsóknir á Biblíunni, fornleifum og könnun heimilda hefur fært okkur nokkuð glögga hugmynd um mat, hráefni og matargerð. Þetta er skemmtilegt efni og ánægjuauki að bragða á þessum kosti.

Kirkja er hús veislunnar og í Neskirkju verður frá og með 16. október eldaður biblíumatur fyrir öll þau, sem vilja kynna sér matríki Biblíunnar og auðvitað borða. Kynning á rétti dagsins, matarhefðum og matarmerkingu Biblíunnar hefst upp úr kl. 12 á Torginu í Safnaðarheimilinu. Síðan verður maturinn borinn fram.

Biblíumatur er hollur og heilsufæði nútímans líkist hinum biblíulega kosti. Maturinn er gjarnan trefjaríkur, dýrafita er lítið notuð en ávextir mikið. Hvítur sykur var ekki til meðal almennings á Biblíutímum. Sætuefni kom úr ávöxtum og hunangi. Fræðin hafa opinbera að biblíufólk hefur jafnan ekki borðað einhæfara fæði en nútímafólk.

Fyrstu fimm skiptin eru matseðlarnir þessir:

Fimmtudaginn 16. október, kl. 12: Kjúklingaréttur Maríu, móður Jesú.
Fimmtudaginn 23. október, kl. 12: Freisting Ísaks. Fíkjulamb Rebekku og Jakobs.
Fimmtudaginn 30. október, kl. 12: Kúmmínfiskur Símonar Péturs.
Fimmtudaginn 6. nóvember, kl. 12: Heródesarfugl
Fimmtudaginn 13. nóvember, kl. 12: Týnda syninum fagnað.

Allir fá svo uppskriftina með sér til að gleðja fólkið heima. Trúarleg gæði eru fyrir alla og alls staðar. Veislan í kirkjunni getur því og má halda áfram heima.

Af hverju erum við að þessu stússi? Biblían opnast fólki með margvíslegu móti. Þetta er einfaldlega tilraun til að matreiða hið biblíulega efni með nýjum hætti. Áhugi á matargerð er vaxandi í samfélaginu og ef Biblían er opnuð meira í heimahúsum er vel. Biblían þjónar lífinu, hinu líkamlega líka. Svo er auðvitað aukabónus að þessi matur er afar bragðgóður!

url: http://sigurdurarni.annall.is/2008-09-23/biblian-er-matarmikil/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli