sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Föstudagsfólk eða sunnudagsfólk · Heim · Auður Kristjánsdóttir – minningarorð »

Merking lita í kirkjulífi og skrúða

Sigurður Árni Þórðarson @ 15.14 26/3/08

Þjóðkirkjan hefur notað fjóra liti, grænan, hvítan, rauðan og fjólubláan í helgihaldi sínu síðustu áratugi. Litanotkun er þó að breytast og verða ríkulegri. Áhrif frá erlendum kirkjum eru skýr. Hér er ofurlítið yfirlit þeirra lita sem notaðir eru í stærstu kirkjudeildum kristninnar. Þeir eiga sér ekki allir hefð eða notkun í íslensku þjóðkirkjunni.

Konungblátt
Konungbláminn er litur konungsins og notaður til að fagna hinum konungborna. Er einnig tákn næturhiminsins sem stjarna jólanna birtist á og minnir því á Jesúkomuna. Blátt er æ meira notað á aðventutímanum fyrir jól í stóru kirkjudeildunum og þá til aðgreiningar frá fjólubláa litnum á föstunni fyrir páska. Aðventutíminn er tími eftirvæntingar, biðarinnar eftir að sveinn jólanna, guð-maðurinn, komi inn í heim manna.

Skærblátt
Táknar gjarnan himininn. Í ýmsum hefðum er skærbláminn tákn fyrir Maríu, drottningu himinsins. Skærbláminn táknar einnig frumvötnin í 1. Mósebók, vötnin við upphaf heimsins. Skærbláminn er æ meira notaður í stóru kirkjudeildunum og þá á aðventunni.

Bleikt
Táknar gjarnan gleði og hamingju. Í ýmsum kirkjudeildum er bleikt notað á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu, þ.e. fyrir jól og þá til að tákna gleði, fögnuð, vegna Jesúkomunnar, fæðingarinnar.

Rósrautt
Notað til að tákna gleði og hamingju og er notað í stað bleiks á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu.

Hvítt
Hvíti liturinn táknar gjarnan hreinleika, fullkomleika og heilagleika. Hvítt er notað á hátíðum kirkjuársins, fyrsta sunnudegi í aðventu, aðfangadegi og jóladögunum (nema 2. jóladegi á Stefánsmessu), þrettándasunnudegi, skírdegi, páskum og eftir páska, þrenningarhátíð og allra heilagra messu o.fl. Einnig víða í kirkjum heimsins notað við skírnir, giftingar, vígslur og einnig við útfarir og þá sem tákn upprisu.

Silfrað
Stundum notað í stað hvíta litarins vegna skærleika.

Gyllt
Tákn gleði, hátignar og hátíðar. Gyllti liturinn gjarnan notaður til að tákna návist Guðs. Oft notað með hvítum á hátíðum, ekki síst á jólum og páskum. Oft notað sem viðbótarlitur á öðrum hlutum kirkjuársins.

Gult
Guli liturinn er ljóstákn og notað um návist Guðs. Tákn um endurnýjun og sem vonarlitur, gjarnan tengt upprisu Jesú. Notað gjarnan í stað gyllts eða hvíts og stundum sem viðbótarlitur með öðrum lit á ýmsum tímabilum kirkjuársins, t.d. páskum.

Grænt
Grænt táknar gjarnan líf, vöxt og viðgang og von. Notað á Íslandi á tímanum eftir þrettánda og fram að föstu, sem og langa tímabilið eftir þrenningarhátíð og að mestu til loka kirkjuársins. Grænn er því mest notaði litur kirkjuársins á Íslandi.

Ljósgrænn
Ljósgrænn stundum notaður sem ígildi hins græna. Í sumum kirkjudeildum er ljósgrænn notaður á föstunni fyrir páska en grænn notaður á tímanum eftir hvítasunnu.

Fjólublár
Fjólublár táknar gjarnan þjáningu, iðrun yfirbót, undirbúning og sorg. Þetta er algengasti föstuliturinn. Stundum notaður sem konungslitur. Hefur verið notaður á Íslandi á jólaföstu líka og er hinn eiginlegi föstulitur skv. Handbók kirkjunnar en ég legg til að við leggjum hann af sem aðventulit og notum bláan í hans stað eins og margar mótmælendakirkjur eru að gera.

Vínrauður
Vínrauður er tákn þjáningar og er oft notaður í stað fjólubláa litarins. Gamlir rómanskir höklar á Íslandi voru gjarnan í þesum lit.

Grátt
Grár er litur ösku og gjarnan litur sorgar og iðrunar. Í ýmsum kirkju heimsins er þessi litur notaður á öskudegi og á föstu sem og á dögum föstu og bæna.

Svartur
Svartur táknar dauða og sorg. Svartur er notaður á föstudeginum langa. Aldrei notaður sem viðbótarlitur með öðrum litum. Svartur notaður oft í stólur sem notaðar eru við útfarir.

Rauður
Rauður er litur nándar Guðs, litur baráttu trúarinnar og jafnvel fórna sem menn færa vegna trúar sinnar, þ.e. píslarvættis. Þá er rauði liturinn blóðtákn. Rauður er litur hvítasunnunnar, kristniboðsdags og minningardaga, t.d. Stefánsdags ef hann er haldinn hátíðlegur 2. jóladag. Kaþólikkar nota sumir rautt á pálmasunnudegi til að minna á yfirvofandi dauða Jesú.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2008-03-26/merking-lita-i-kirkjulifi-og-skruda/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli