sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Næðifæði takk – engan skyndibita · Heim · Pálmi, starri og mannlífið »

Nautakjöt pönnusteikt – Týnda syninum fagnað

Sigurður Árni Þórðarson @ 22.23 27/2/08

Þú verður nú að skrá þessa uppskrift sagði mitt fólk við kvöldverðarborðið. Er í tilraunum með biblíumat og var að gera tilraun með þurrkaða ávexti. Það skal tekið fram að þau sem glöddust mest yfir matnum voru að koma úr World Class, sem er hluti ánægjuskýringarinnar. Þau glöddust og týndi sonurinn í Jesúsögunni gladdist. En hér kemur uppskrift frá köldum miðvikudegi í lok febrúar.

800 gr fitulaust, gott nautakjöt
2 msk furuhnetur
2 msk estragon
1 tsk basilika
1 tsk rósmarín
2 tsk Maldonsalt
1 tsk svartur pipar
4 msk ólívuolía
15 smátt skornar döðlur
3 msk þurrkaðir ávextir – t.d. apríkósur eða það sem þér finnst gott!
1 stór rauðlaukur
6 hvítlauksbátar
2 perur

Furuhnetur, kryddið, ólífuolía og hvítlaukur sett í matvinnsluvél, malað og úr verður þykkur grautur. Lambakjötið skorið í 2 cm teningar sem eru settir í kryddgrautinn og séð til að allar hliðar kjötbitanna séu vel þaktar. Síðan er kjötið steikt á snarpheitri pönnu og þegar kjötið er farið að brúnast er smátt skornum lauk, döðlum bætt í. Þess gætt að ekki brenni og svo það sem efir er af hráefni síðasta út í. Lágur hiti og til að varna bruna er vatni bætt á pönnuna. Þegar fullsteikt er ráð að slökkva undir og leyfa matnum að standa góða stund. Það hjálpar þurrkuðu ávöxtunum að koma til og smita út sínu bragði.

Kúskús er gott meðlæti og kannski líka litsterkt ávaxtasalat.

Það er alltaf spuni í mínum elda- og pottamálum. Uppskriftin er skráð skv. brigðulu minni og vel getur verið að hlutföll hafi verið eitthvað önnur en hér er ritað.

Athugið að lambakjöt má nota í stað nautakjötsins. Síðan er skemmtileg útgáfa að skera hráefnið til þræðingar á spjót og grilla síðan.

Vænt þætti mér um ábendingar um hvað betur mætti fara.

Verði ykkur að góðu – góð ferð í nammiland Biblíunnar.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2008-02-27/nautakjot-ponnusteikt-tynda-syninum-fagnad/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli