sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Síta – Sigríður Jónsdóttir – minningarorð · Heim · Krísa á dómsdegi »

Lifað í spíral

Sigurður Árni Þórðarson @ 21.02 22/10/07

Í lífinu förum við einatt í spíral, sem er gott og betra en að hringsóla! Eftir langferð í vinnu, búsetu eða einkalífi leitum við oft til “baka” í einhverjum skilningi. Ég kom eftir stóra hringferð á minn reit og lenti í bæ afa og ömmu með mitt fólk. Benskuminningar og búsetubrot setti ég niður að beiðni Vesturbæjarblaðsins sem birti í októberblaði 2007.

Ég bý í Litlabæ á Grímsstaðaholti, bæ afa og ömmu. Pabbi fæddist undir súð þessa steinbæjar frá 19. öld og húsið er búið að vera í eigu fjölskyldunnar 115 ár. Reyndar er það þriggja alda hús og hefur verið prjónað við það, einu sinni á hverri öld. Synir mínir þrír eru fjórði liður í karlegg í þessu húsi og það er sjálfsagt óvenjulegt í reykvísku samhengi að eiga sér slíka samfellusögu. Svo hafa karlar í minni ætt verið gamlir þegar þeir eiga börn. Yngri synir mínir, sem nú búa í Litlabæ, fæddust eitt hundrað árum á eftir afa sínum sem fæddist í bænum! Það er gaman að strekkja tímann og teygja kynslóðir. Svo áttu afi og amma tvíbura í Litlabæ sem dóu, en nú eru aftur komnir tvíburar öld síðar, þeir lifa.

Foreldrar mínir hófu búskap í gólfkaldri íbúð yfir matvörubúð á Hofsvallagötu 16. Fisk-eða kjötgeymslan var undir hjónarúminu svo foreldrar mínir höfðu engan annan kost en að gera sitt til að halda góðum hita í svefnherberginu. Á Hofsvallagötunni bjó ég fyrst árin. Ramma bókhlöðulykt lagði inn á heimilið því Borgarbókasafnið var með útibú í herbergi við hlið íbúðar okkar.

Á Grímsstaðaholtið
Pabba langaði “heim,” mamma vildi heitara svefnherbergisgólf og meira athafnarými utanhúss. Þegar borgin tók land ömmu og afa eignarnámi fékk pabbi tvær byggingarlóðir við Tómasarhaga. Á annarri byggðu foreldrar mínir. Pabbi var múrari svo hann kunni handverkið. Við fluttum inn árið 1956. Um tíma leigðu foreldrar mínir út eitt herbergi, en svo kom amma norðan úr Svarfaðardal. Amma spann og prjónaði þúsundir af sokkum og vettlingum, söng, kvað, spilaði vist og kasínu og hafði kopp undir rúmi. Ég deildi með henni herbergi og baðstofutilveru þar til ég lauk stúdentsprófi og fór að heiman. Ég þakka fyrir að hafa fengið innsýn í líf og trú aldanna með þessu móti. Þetta hafði örugglega djúp áhrif á mig og síðar vann ég svo úr ýmsu úr þessari lífsblöndu í doktorsritgerð minni um myndmál í trúar- og guðfræðiarfi Íslendinga.

Dýrustu kartöflur á Íslandi
Á lóðinni við hlið húss okkar ræktaðu foreldrar mínir grænmeti. Pabbi var liðtækur, en þó var mamma hið drífandi vald. Hún var sveitakona að upplagi og mótun, naut ræktunar og smitaði eða miðlaði til okkar hinna. Margir sáu þessa óbyggðu lóð og fannst útkjálkalegt að rækta kartöflur á þessum stað. Pabbi hafði alltaf jafn gaman af að kalla mömmu í símann þegar áhugasamir verktakar og lóðagírugir byggingamenn vildu kaupa. Hún átti ekki í neinum vandræðum með að segja þeim, að lóðin væri notuð til rækta grænmeti. Heimaræktaðar kartöflur og kál væru fyrir fólkið hennar. En þeir, sem hringdu, skildu ekki þetta gilda og græna svar hennar og spurðu hvort þeir gætu ekki keypt samt. Þá tók hún til við siðfræði hins heilbrigða lífs og hollustu, að sátt við lífið og moldina væri undirstaða góðs mannlífs og heilbrigt mannlíf væri meira virði en peningar. Þá fór að daga á viðmælendur, að þessi kona skildi ekki, að peningar ættu og yrðu að ráða veröldinni! Þetta urðu oft mjög skemmtilegar viðræður og mamma var til í fræðsluna um lífið. Svo sendi hún mig bara með kartöflur og kál til nágranna og vina. Gamli dreifbýlisstíllinn var iðkaður í miðri borg. Foreldrar mínir voru náttúruunnendur og verndarsinnar og þau höfðu húmor fyrir þegar Þjóðviljinn sló upp á forsíðu, að á byggingarlóð við Tómasarhaganum væru ræktaðar dýrustu kartöflur á Íslandi. Sú frétt breyttist hjá nágrönnunum og endaði í því að mömmukartöflurnar væru dýrustu kartöflur í heimi. Mynd af þessum dýrmæta akri var birt með fréttinni. Forsíða Þjóðviljans kom upp úr kistli mömmu þegar hún var dáin. Hún hafði varðveitt hana til minja.

Margir krakkar
Melar, Hagar, Skerjafjörður og sjávarsíðan voru risastórt og opið ævintýraland fyrir okkur börnin. Leikirnir gátu orðið stórfenglegir. Farnar voru veiðiferðir austur í fenin í Vatnsmýri, niður að sjó eða í ræsin við Örfirisey, og könnunarferði út á flugvöll, niður í bæ, niður að og á Tjörn og út á Nes. Grunnfesta og vöktun var slík, að við fengum að fara víða ef við aðeins skiluðum okkur í máltíðir. Nærri hádeginu hrópuðu mömmurnar úr húsunum og kór mömmuópanna barst um hverfið. Þegar ég heyrði síðar bænaköllin úr moskum erlendis minnti þau mig á matarköll mæðranna!

Tómasarhaginn var mannmargur. Hinum megin götunnar bjuggu Sigurbjörn, biskup, og Magnea, kona hans, með sinn glaða krakkahóp. Þau voru skemmtileg, Sigurbjörn snillingur og Magnea var einstök mannkostakona sem opnaði hús sitt gagnvart grönnum sínum. Það var þröngbýlla á Högunum en er í dag. Það voru fáar einstaklingsíbúðir á þessu svæði á þeim tíma. Krakkar voru í öllum skotum og íbúðarholum. Mannlífið var litskrúðugt, stundum eltu “fullir kallar” okkur og urðum við vitni að fjölskyldustríðum. Allt var þetta tekið inn og unnið úr. Margar búðir voru á svæðinu, Ragnarsbúð, Stebbabúð, KRON og svo var besta búðin á horni Tómasarhaga og Fálkagötu. Þar ríkti öðlingurinn Árni í samnefndri búð sinni. Um tíma var ég sendill hjá honum og hjólaði út vörum fyrir hann. Árni var góður vinnuveitandi og í útkeyrslunni kynntist ég mörgum sem og síðari blað- og póstútburði.

Aldrei var hörgull á leikfélögum. Mörg okkar sóttum æfingar í KR, ég spilaði bæði fótbolta og handbolta. Alltaf nóg af strákum í fótbolta á sparkvöllunum, krökkum í brennó og feluleiki. Meðan gatan var ómalbikuð gátum við grafið í hana skipaskurði milli heimshafanna, pollanna. Í þurri vindatíð rauk leirinn upp úr götum á Högum og Melum. Nú hefur trjágróðurinn gerbreytt vindálaginu í hverfinu.

Fjörugt mannlíf
Allir krakkar áttu sleða og mikið gekk á þegar snjóaði og allur skarinn renndi sér niður brekkuna hjá Árnabúð og bakaríinu á Fálkagötu. Stríð geisuðu á milli hópa úr götunum í kring. Fálkagötustrákarnir voru sérlega harðskeyttir. Stundum lögðum við herina saman og fórum í víking í Skerjafjörð eða upp í Þingholt. Grimsby var nærri og þetta var ævintýraland “djöflaeyjunnar.” Halldór og Jósefína, kennd við Nauthól, bjuggu nærri. Halldór, stundum kenndur við Þrótt, var í fiskbúðinni við Dunhaga og varð veikindagulur áður en hann dó. Jósefína var eftirminnileg og allt það fólk, sem kemur fram í bók Einars Kárasonar. Ég hræddist strákagengið í Grimsby og fannst djarft hjá föður mínum að ráða þá alla til að bera timbur og texplötur ofan úr H. Ben-skemmunni og heim í hlöðu. En hann hafði lag á þeim og borgaði ríflega. Allir voru kátir.

Hjólreiðar á flugbrautum
Flugvallarsvæðið var sérlega heillandi. Það var gaman að gramsa í dótinu í aflögðu Tívolí. Svo var hægt að bregða sér upp að flugbrautum og jafnvel yfir þær. Reglan var einföld. Maður horfði til beggja hliða og ef ekki sást í flugvél hjóluðum við bara hratt yfir brautina! En stundum kom flugvallarlögreglan og skrifaði okkur “upp” og las yfir okkur hve uppátækið væri stórhættulegt. Við vissum það nú reyndar fyrir og biðum af okkur skammirnar. Verst var þegar við vorum gómuð að verða að hjóla norður fyrir völlinn. Leiðin var löng heim og það var versta refsingin. Svo var tekið fyrir þessi reiðhjólaflugtök með því að girða svæðið.

Í öllu hverfinu var verið að byggja hús. Klifurmöguleikar voru því góðir og við þurftum líka að prufa græjurnar, sem notaðar voru við húsbyggingarnar. Ég fékk einu sinni sandfötu í höfuðið, kom heim með alblóðugt höfuð. Mamma æpti og hélt ég myndi deyja. Ég hélt, að hún myndi líða útaf svo mikið varð henni um. En smáslys voru algeng, við strákarnir söfnuðum örum á þessum árum.

Bjössi og veiðar
Ægisíðan heillaði og ég sótti snemma niður á strönd. Grásleppukarlarnir skildu veiðihug okkar og gáfu okkur beitu. Ég man eftir að fyrsta fisk ævinnar veiddi ég við hlöðnu bryggjuna vestan kofanna. Þar komu ufsaseiðin upp með flóði og svo fór maður úr buxunum og stóð berfættur og berlæraður í miðri sílatorfunni og veiddi. Svo fór ég heim hæstánægður með blákalda fætur og 5 cm. fisk. Stærð eða magn afla skiptir ekki eins miklu máli í lífinu og gæði og upplifun!

Mér fannst Bjössi, Björn Guðjónsson, alltaf bera höfuð og herðar yfir hina grásleppukarlana. Hann var glettinn og elskulegur við okkur krakkana og tók því ljúflega þegar ég vildi gerast háseti hjá honum. En ég varð að spyrja foreldra mína fyrst. Leyfið var veitt og svo fór ég á sjó hjá honum, hann sýndi mér handverkið, kenndi á skerin og benti mér á hnísu í sjónum. Dagurinn með Bjössa á sjó úti hjá Lönguskerjum var ævintýri líkastur. Öll þessi smáútgerð var hvetjandi.

Túttuútgerð
Þar sem Stúdentagarðarnir eru núna voru verkstæði Landleiða og Norðurleiða. Þar var hægt að finna leikföng. Við brutum ónýtar legur og hirtum úr þeim kúlur til að leika með. Svo gáfu karlarnir mér sprungnar slöngur, sem ég lagfærði, blés upp og raðaði saman og bjó til pramma. Þetta var mikil græja, sem ég náði að koma niður í fjöru, hélt út á sjó og ýtti mér áfram með löngu bambuspriki, var eiginlega eins og gondólaræðari. Útgerðin lánaðist ágætlega, enda var ég búinn að stúdera strauma, dýpi og staðhætti, en eftir að Kristín systir datt af flekanum og fór á bólakaf tók ég fyrir öll útlán. Það er mesta furða að maður skyldi halda lífi í öllum uppátækjum.

Skólarnir og mótun
Ég man eftir hvað ég var stressaður og sveittur þegar ég fór sex ára í lestrarprófið hjá Helgu, yfirkennara í Melaskóla. Ég fékk 2,3. Talan brenndist í huga en var svo sem merkingarlaus að öðru leyti, en þetta hefði bara verið gott hjá mér. Jón Þorsteinsson var aðalkennari minn allan barnaskólann, traustur skólamaður, fastur fyrir og ákveðinn. Mamma hafði sína skólastefnu og hann sína. Ég man eftir að hann gerði kröfu um, að við hefðum þrjá langa, blýanta til reiðu. Mamma var ósammála og vildi að við nýttum vel og ég varð á milli þessara stórvelda í blýantastríði. Mamma hafði alltaf sigur í öllum málum, líka þessu og Jón kennari beygði sig fyrir móðurvaldinu. En í skólanum varð hann ekki sigraður af okkur krökkum, hélt fullkomnum aga. Við vissum líka hversu sterkur hann var, hann vann erfiðisvinnu á sumrum og kom vaskur og hvíldur til skólavinnu að hausti.

Starfslið Melaskóla var öflugt þá sem nú. Ingi skólastjóri var frábær skólamaður. Hann var laginn við að snúa okkur til þroska. Tvö síðustu ár mín í Melaskóla gekk púkk- og hark-æði yfir. Við notuðum gjarnan fimmeyringa til að kasta að striki eða í holu. Ég æfði köstin og varð hittinn. Þetta er eina skiptið á ævinni, sem ég hef náð mikilli hæfni í að auka peningaeign mína! Suma dagana voru vasarnir svo fullir af peningum, að ég fékk risamarbletti á lærin og átti erfitt um gang. Inga, skólastjóra, var illa við þessa leiki og einn daginn kom hann út á lóð eftir skóla og tók mig á eintal. Með lagni og ljúfmennsku höfðaði hann til ábyrgðarkenndar minnar. Við sammæltust um, að ég yrði að bera nokkra ábyrgð á skólafélögum mínum, sem hefðu ekki sömu kasthæfnina. Inga tókst að hemja fjárplóginn og kenna mér í leiðinni siðsemi í samskiptum. Ég lærði, að hæfni ber að nota til góðs og ekki bara í eigin þágu. Seinna sagði mamma mér, að þau foreldrar mínir hefðu verið honum mjög þakklát. Flottur skólamaður Ingi.

Hagaskóli tók okkur krökkunum opnum örmum og var rífandi skemmtilegur. Kennaraliðið var einvalalið og Björn Jónsson sömuleiðis afburða stjóri. Ég er enn að læra af honum, var að læra Björnsaðferðina í skógrækt og heimsótti hann í Fagurhlíð í Landbroti einu sinni. Hann var sömuleiðis tengdur sínum nemendum og var á gólfinu. Hann tók mig að sér í borðtennis og æfði sinn mann og borðtennislið Hagaskóla varð ósigrandi. Allir strákarnir horfðu á eftir Bryndísi Schram og einkunnir voru lágar í prófi sem hún sat yfir í. Haukur Sigurðsson, Finnur Torfi Hjörleifsson og Jóna Hansen voru eftirminnilegir kennarar, sem lögðu mikið á sig til að koma okkur til nokkurs þroska. Við lærðum fljótt á aðferðir Jónu, sem lét okkur sitja eftir, ef við kunnum ekki orðalistana í dönsku og ensku. Dugmiklir kennarar eru gæfa hverjum skóla. Góðir skólar eru ekki sjálfsagðir og skólarnir í hverfinu voru og eru þakkarverð dýrmæti.

Kirkjan líka
Kirkjulífið var fjölbreytilegt. Nessöfnuður byrjaði starf sitt í Háskólakapellunni og eftir að kirkjan var vígð 1957 héldu guðfræðinemar áfram barnastarfi þar. Við sóttum í fjörmikið sunnudagaskólastarf þeirra. Ég man eftir, að það var komin samkeppni í sunnudagaskólahaldið því krakkarnir báru saman hvar var skemmtilegast. Kirkjuferðum okkar fjölgaði og í bernskuminninguna blandast hin sérstaka Neskirkjulykt. Siggi Sunnó, sem var stundum karlinn á kassanum á Lækjartorgi, hefur heiðursess í barnsminningunni. Hann rak heimilissunnudagaskóla á Bjarnastöðum við Tómasarhaga. Þangað fór ég oft og kynntist yndislegri fjölskyldu hans þar. Heimatrúboð var rekið á Fálkagötunni og svo fórum við strákarnir líka á KFUM-fundi á Amtmannsstíg og í Vatnaskóg.

Í Neskirkju var öflugt æskulýðsstarf með sr. Frank M. Halldórsson og Sigurbjörn Guðmundsson, verkfræðing, í fylkingarbrjósti. Þeir voru óþreytandi að halda fundi, tala við okkur, fræða og fara í ferðir. Svo fengum við verkefni og í nokkra vetur var mér falið að vera Páli Pálssyni, síðar presti á Berþórshvoli, til aðstoðar og segja börnunum sögur. Okkur unglingunum var treyst. Ég dáist enn að því, að okkur Jónasi Þóri skyldi heimilað að efna til Jesúsamkomu og mikið lagt undir. Jónas Þórir sá um músíkdeildina og fékk m.a. lánað Hammondorgel Kalla Sighvats í Trúbrot. Unglingarnir í hverfinu fjölmenntu og allir vildu eiga plakatið af Jesú í felubúningi – Eftirlýstur Jesús Kristur. Okkur var sýnt traust, við vildum ekki bregðast því og efndum til rífandi samkomu. Í hinu fjölbreytilega kirkjulífi lærði ég að Guð er ekki aðeins á einkasviðinu heldur hæfir hinu opinbera einnig. Ég átti aldrei í vandræðum með að nema hið trúarlega í hinu almenna eða verða prestur.

Spírall lífsins
Ég fór 17 sumur í sveit og átti því fleiri líf en á Högunum. Eftir MR fór ég út í heim, til náms og síðan starfa um land og heim. En flest leitum við til baka. Ég kom eftir stóra hringferð á minn reit og lenti í bæ afa og ömmu með mitt fólk. Reyndar eru stelpurnar tvær fullorðnar og hafa byrjað sína hringferð. Það er gott fyrir börnin mín að alast upp í þessu þorpssamhengi, með aðgengilega fjölskyldusögu að baki og án rofs. Svo er það nú með okkur Vesturbæingana, við höfum tilhneigingu til að leita heim, koma til baka, eins og hverjir aðrir heimfúsir klárar, fara að halda með KR að nýju, gleðjast yfir að skólarnir skuli halda standard, skúrarnir standi enn við Ægisíðuna og kirkjan sé á sínum stað við Hagatorgið, líflegt heimili fyrir alla aldurshópa, opin og gefandi.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2007-10-22/lifad-i-spiral/


© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli