sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Myndasíða · Heim · Lúkkið, Silvía Nótt og Jósep »

Jórunn Elenóra

Sigurður Árni Þórðarson @ 00.03 21/11/05

Jórunn Elenóra

Öll augu voru full af gleði, eftirvæntingu og hátíð. Tilefnið var ærið. Stór vina- og ættingjahópur var samankominn í Neskirkju 19 nóvember sl. til að vera vottar skírnar Jórunnar Elenóru. Hún er velkomin í heiminn og var borin af styrkum elskuörmum til kirkju.

foreldrarnir nokkuð íbyggnir við skipulagið

Jórunn Elenóra er dóttir Ágústu Kristínar Andersen og Haraldar Flosa Tryggvasonar, sem hafa um tíma búið á Melhaga, en flytja brátt á Holtsgötu. Við upphaf athafnar söng Ellen Kristjánsdóttir, við undirleik Eyþórs manns síns, sálminn Ástarfaðir himinhæða.

Söfnuðurinn myndaði síðan hring umhverfis skírnarlaugina. Matthías og Ívar, eldri bræður skírnarþegans lásu textana, svona líka glimrandi vel. Ívar er heimavanur, enda búinn að vera í fermingarfræðslu í Neskirkju síðan í ágúst í haust. Haraldur hélt á dóttur sinni undir skírn. Sú stutta var vel áttuð, yfirveguð og róleg. Umhyggja skírnarvottanna skein úr augum. Í skírnarlok sungum við síðan sálminn Ó, Jesú bróðir besti.

Nafnið kemur frá ömmunum, önnur er íslensk og Sieglinde er þýsk og ber einnig nafnið Elenóra, sem er nú endurnýtt. Guðmæður eru Rán Tryggvadóttir og Guðjóna Björk Sigurðardóttir. Það var gaman að heyra hvað þær voru stoltar af hlutverki sínu og að skyldur þeirra væru þeim ljúfar. Þær eiga örugglega eftir að koma í kirkju með þá stuttu og styðja foreldrana í hinu trúarlega uppeldi. Guðfeðginahlutverkið megum við gjarnan efla.

mömmukoss

Eftir athöfn í kirkjunni var farið í safnaðarheimilið. Á Torginu var búið að dekka borð og undirbúa mikla veislu. Hið opna rými er glæsileg umgjörð um veislu af þessu tagi. Það er þægilegt fyrir skírnarfjölskyldur að geta nýtt kirkjuna og safnaðarheimilið á þennan hátt. Faðirinn, Haraldur, hefur verið að kenna í safnaðarheimilinu í haust og faðir hans, Tryggi afi, sömuleiðis. Svo hélt Tryggvi líka í sumar sjötugsafmæli sitt í safnaðarheimilinu. Fjölskyldan kann vel á húsnæðið, nýta og meta.

Eftir nokkuð hlé frá prestsstörfum kom ég nú að athöfn. Það var yndislegt og ekki síst vegna þess hversu sterkan baug þessi stóri ættbogi og vinhópur myndaði um litla stúlku, sameinaðist í umhyggju, samstillingu vona og bæna. Að skíra er eitthvert stórkostlegasta prestsverk sem til er, að hlýða Jesúboðinu að bera barn á bænarörmum fram fyrir Guð og ausa það vatni til lífs. Nýbakaður faðir skynjaði sterkt þessa upphöfnu gleði og auðmýkt foreldranna. Guð geymi Jórunni Elenóru og hennar góðu, geislandi fjölskyldu.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-11-21/00.03.39/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli