sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Kaþarsis – hreinsun · Heim · Gulrótarkveðja »

Tvibbamál

Sigurður Árni Þórðarson @ 17.46 21/10/05

Það var gaman að fylgjast með Gígju ljósmóður vega tvibbana. Hún notaði gömlu aðferðina, sem ég hélt reyndar að væri aflögð, en er greinilega í fullu gildi. Lítill strípaður kútur settur í bleyjupoka og svo vigtaður í reislu af gamla taginu. Þeir voru alveg kyrrir í pokanum, settu sig í fósturstellingu og virtust kunna þessu ljómandi vel. Vegnir en ekki léttvægir fundnir! Vona að þeir verði þannig í lífinu.

Saman

Vegna öndunarerfiðleika kom Ísak viku síðar heim en Jón Kristján. Það var spennandi að leggja þá saman í rúm. Þeir horfðu hvor á annan og ekki gat maður greint hvað fór í gegnum huga. Þeir höfðu nú svo sem hist áður, verið alla þessa mánuði saman í móðurkviði. Svo sváfu þeir saman dagsblundana, snertu hvor annan léttilega. Það var eins og þeir væru á varðbergi, drógu til baka puttana ef þeir komu við hinn. Svo urðu þeir slakari en við ákváðum að láta þá sofa í sitt hvoru rúminu. Og sjá, þeir voru ómögulegir, óværir og rellandi. Við stungum þeim því í sama rúmið kl. 3 um nóttina. Það var auðvitað eins og í sögunum, þeir féllust í faðma og sváfu vært það sem eftir lifði nætur. Tvíburar vilja nú vera saman.

Slagsmál

Nánd og vinátta útilokar ekki hina skapandi spennu. Þeir Jón Kr. og Ísak strjúka hvorn annan en svo getur auðvitað kastast í kekki. Mér varð á að leggja Ísak nálægt bróður sínum og snúa honum jafnframt að honum. Jón sneri út að rúmhlið og svaf vært. Skyndilega byrjaði Ísak að slá frá sér og bróðirinn vissi ekki hvað yfir hann reið og varð skelfdur. Ég varð því að skilja þá að, líklega ekki í síðasta sinn. En Jón átti eftir að launa bróður sínum lambið gráa, sveiflar hnefa eins og sést á þessari mynd! Þetta er eins og í boxhring, sá sem verður fyrir högginu lokar augum.

högginu lokar augum.

En svo jafna þeir sakir, verða svona undur góðir vinir og mega ekki af hvor öðrum sjá, snúa bökum saman og sofna eins og aldrei hafi neitt komið fyrir þeirra í millum. Tvibbalíf er fjölskrúðugt, þeir trufla hvor annan, örva hvor annan, slást, hlægja, hlýja hvor öðrum. Maður er manns gaman og tvibbar eru töfrandi.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-10-21/17.46.56/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli