sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Lost, blinda og sýn · Heim · Sesselja og Magnús eru hjón »

Tvíburar í Litlabæ

Sigurður Árni Þórðarson @ 16.28 12/10/05

Jón Kristján og Ísak 12. október 2005

Jón er kominn heim og Ísak líka. Litlabæjarfjölskyldan er ekki lítil heldur stórfjölskylda. Okkur Elínu fæddust tvíburar 26. september, tveir strákar. Annar þeirra kom heim með mömmunni fyrir viku síðan, en hinn kom í dag. 12. október er því hamingjudagur.

Ísak Sigurðarson

Fæðingin varð heldur fyrr en til stóð. Full meðganga var miðuð við 22. október, en svo reyndist nauðsynlegt að skera til að heilsu móður og barna væri ekki ógnað. Það liðu ekki nema fjórar mínútur frá því mamman var deyfð þar til Þóra Steingrímsdóttir, læknir, var búin að draga þann fyrri út úr móðurkviði. Hann rak upp mikið óp og var fagnað innilega af skurðstofufólkinu. Svo birtist ásjónan okkur foreldrum fyrir ofan skurðdúkinn. Svo kom hinn, hann var heldur lífminni. Ég var strax áhyggjufullur, þegar hann blánaði upp. Barnalæknirinn hljóp með hann upp á vökudeild. Sá fyrri andaði vel og var lagður í fang föður. En vökudeildarferð hins var upphaf þrautagöngu. Súrefniskassi var ekki nóg, heldur endaði hann í öndunarvél. Síðan féll lunga hans saman. Frábært hjúkrunarlið á vökudeildinni vann sína vinnu fumlaust og bænafólk um allan heim umspennti þá bræður í fyrirbæn. Þetta gamla “ora et laborta” iðja og bæn fara vel saman. Í dag kom sá veiki heim, með “fallegt lunga” samkvæmt því sem Hörður barnalæknir sagði.

Jón Kristján Sigurðarson

Bræðurnir eru þegar nefndir. Sá sem fæddist fyrr heitir Jón Kristján eftir móðurafa sínum, sem lést á fæðingardegi bræðranna, fimmtán árum fyrr. Hitt nafnið kemur úr þeirri góðu bók Biblíunni. Ísak átti fullþroska foreldra, Sara móðir hans var níræð og Abraham tíræður og ef deilt er í aldur þeirra með tvíburum fæst út nálgunaraldur foreldra tvibbanna. Það er himinn í nafngjöfinni. Jón er norræn útgáfa Jóhannesarnafnsins og þýðir, Guð er náðugur/góður og Kristjánsnafnið er gegnsætt, það að vera kristinn maður. Ísaksnafnið merkir guðshlátur. Það er því himnesk skemmtun í þeirri nafngjöf, en eins og kristnir menn vita er Guð ekki aðeins góður heldur líka húmoristi. Framar öðrum tjá börn þær guðseigindir vel.

Ekkert í lífinu er merkilegra er barnalán. Ekkert er stórkostlegra en að halda á kornabarni, sem horfir á mann augum framtíðar, með allt í vændum, með alla þrá og von veraldar og himins í sálu. Slíkt tillit knýr okkur ástvini til lífsgleði og ábyrgðar. Við, Litlabæjarfólk, erum hamingjufólk. Allt heimilisfólkið býður Jón Kristján og Ísak velkomna heim.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-10-12/16.28.26/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli