sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Kjartan Hugi skírður · Heim · Draumur og hamingja »

Tinna Tynes hleypur út í lífið

Sigurður Árni Þórðarson @ 13.54 24/8/05

Tinna Tynes

Þegar hlaupararnir í Reykjavíkurmaraþoninu voru að ljúka sínu hlaupi var Tinna skírð. Ottó Tynes, pabbinn, hélt á skírnarskálinni og Hrefna Guðmundsdóttir, mamman, hélt á litlu konunni. Skírt var heima hjá föðurforeldrum, í Kópavogi, beint undir himinglugga í stofunni.

Ottó hafði hringt, vildi fá prest og fannst við hæfi, að það væri klerkur sem þjónaði Neskirkju. Hún Hrefna Tynes, amma hans, hefði nú verið búin að starfa þar svo lengi! Já, mikið rétt, Hrefna var stólpi í starfi Neskirkju og reyndar starfi þjóðkirkjunnar, sem starfsmaður á Biskupsstofu. Hrefnutengslin voru skemmtileg og sköpuðu strax gleði í samskiptunum. Svo komu þau Hrefna yngri í Neskirkju til að undirbúa skírnina. Við fórum yfir athöfnina og ræddum hugmyndirnar. Það var skemmtilegt að ræða við þau, þau eru óhrædd að skoða málin frá öllum hliðum. Þau eru gjafmild og auðug af hugmyndum.

Svo fór ég í Kópavog í öllu þessu menningarnætursamhengi, sumir voru að koma frá dagskrá í Reykjavík og ætluðu að taka þátt í meiru um kvöldið. Margt gestanna hafði ekki hist áður og allt er þetta svo spilandi létt fólk, að tengslamyndunin var hröð. Áður en skírt var stjórnaði stuðboltinn, Ottó, grúbbudýnamískum fjöldasöng. Texti frá Hrefnu ömmu þjónaði hlutverki sínu fullkomlega. Síðan naut Tinna skírnar og fyrirbæna. Kjartan, móðurbróðir, las textana. Almenn þátttaka var í sálmasöngnum og svo flutti langamma þetta líka fína ljóð. Guðfeðgin eru Bryndís Guðmundsdóttir og Guðmundur Kristjánsson.

Tinna er falleg kona og afar mannvænleg. Söfnuðurinn umspennti hana með bænum og góðum óskum. Andinn kom til hennar, líf hennar hafið. Hún hleypur sitt lífsskeið, sitt maraþon. Guð geymi hana á þeirri för og varðveiti fjölskyldu hennar.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-08-24/13.54.35/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli