sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Geir Jóhann Geirsson · Heim · Tinna Tynes hleypur út í lífið »

Kjartan Hugi skírður

Sigurður Árni Þórðarson @ 16.34 9/8/05

Kjartan Hugi Rúnarsson

Við Neskirkjufólk höfum eiginlega fylgst með Kjartani Huga frá því hann var í móðurkviði. Pabbinn, Rúnar Reynisson, starfar í kirkjunni. Mamman heitir Þorbjörg Magnúsdóttir. Drengurinn er þriðja barn þeirra hjóna. Hin eru Magnús og Laufey og svo kom Kjartan Hugi. Skammstöfun barnanafnanna er KLM!

Heimili fjölskyldunnar var hvítskúrað og glansandi á sunnudagssíðdegi 7. ágúst síðastliðin. Fyrsti hauststormurinn hafði gengið yfir, gámar fuku á haf út og ég sá tvo strandaða á Lönguskerjum, þegar ég fór af stað til skírnar. Um morguninn hafði sjór, á fjöru, staðið óvenju lágt. Kannski er það við hæfi að sjór fari mikinn og náttúran kætist, Kjartan merkir sæfari og sá, sem fær nafnið Hugi, hlýtur að verða hugumstór að auki.

Fjölskyldan var samankomin, við sungum skírnarsálm “Ó, blíði Jesú blessa þú” – öll erindin á undan skírn. Söngurinn var flottur, mun betri en húsbóndinn átti von á. En Kjartan er söngvin því hann tók þátt í söngnum með okkur hinum, en vildi ekki hætta þegar sálmurinn var búinn! Mamman hélt á þeim stutta undir skírn, en pabbinn hélt á skírnarskálinni. Systkinin lásu Biblíutextana og gerðu það frábærlega. Það er bæði rétt og gott við það að auka virkni og þátttöku nærstaddra við skírn og raunar við allar kirkjuathafnir. Guðmæður eru Erla Reynisdóttir og Laufey Kristinsdóttir.

Birtan baðaði stofurnar og fólkið, tár voru í augum. Barn var borið til skírnarlaugar og blessað himninum. Heilagur andi var í með og undir. Saman báru við bænir í sjóð. Kjartan Hugi er barn jarðar en líka helgaður himninum. Við sungum svo í lokin “Ó, Jesú bróðir besti.” Svo komu þessar stórkostlegu veitingar og sá stutti fór í franska vestið, verður örugglega skartmenni! Hann á kyn til smekkvísi. Guð geymi hann og þessa fallegu fjölskyldu.

Kjartan Hugi og fjölskylda

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-08-09/16.34.49/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli