sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Lára Ósk skírð · Heim · “…og mannsins barn að þú vitjir þess.” »

Spilað úr Hagaskóla

Sigurður Árni Þórðarson @ 18.38 9/6/05

Þórður spilar við útskriftFögnuður, kátína, frábær námsárangur og framtíðarfólk. Tíundi bekkur Hagaskóla var útskrifaður í dag. Athöfnin var í Neskirkju. Einar skólastjóri hélt inntaksríka ræðu, afburðanemendur voru hlaðnir gjöfum og lofi að verðleikum. Svo spilaði Þórður frumsamið verk á flygilinn og spilaði með bravúr. Bekkjarsystkinin stóðu á fætur og æptu lof flutningi og spilara. Pabbinn er alltaf jafnhissa á færninni því Þórður hóf ekki píanónám fyrr en síðastliðið haust.

Kennaraverkfallið nýtti hann vel og gaf út geisladisk fyrir jólin. Nú spilaði hann hluta úr eigin sónötu, sem hann var búinn að stytta verulega. Honum kom á óvart þegar hann var beðinn að spila við útskrift eftir eins vetrar nám! Þórður spilaði sig út úr skóla. Spilarinn hugsaði sig um og vildi spila gott verk en ekki bara eitthvert stutt sound-bit. það var samþykkt og svo var leikið í heilar sjö mínútur og verkið fékk að njóta sín. Það var töff hjá Þórði að spila vel og á dýptina fremur en stutt og afsleppt.

Hagaskóli er góður skóli, starfsfólk og kennarar koma öllum til nokkurs þroska, eins og er markmið skólans. Mér lánaðist að kynnast mörgum skólasystkinum Þórðar og ekki síst bekkjarfélögum. Af kynnum mínum af ungviði hér í Vesturbænum hef ég óbilandi trú á framtíð íslenskrar þjóðar!

Þórður við flygilinnSpilamennskan var bónus á útskriftarathöfn. Aðalatriðið var auðvitað, að Þórður stóð sig mjög vel í prófum og hefur því möguleika til að sækja þann skóla sem hann kýs. Nú er bara að fara og sækja um, það er gert rafrænt.

Það vermdi að hlusta á öfluga menntunarræðu Einars Magnússonar. Manngildi, klassískar dyggðir og holl heilræði um vináttu, þakklæti og samstöðu var gott vegarnesti fyrir útskriftarfólk í Hagaskóla. Það var gott að fá að vera foreldri við útskrift í dag. Kirkjan hélt vel utan um athöfn, er eðlilegur heimarammi skólans og hverfis.

Takk Hagaskóli, skólastjórn, kennarar og starfsfólk fyrir óbilandi metnað í störfum, fagmennsku og alúð. Góður skóli er þakkarefni, Hagaskóli er dýrmæti.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-06-09/18.38.55/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli