sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Börn að leik · Heim · Spilað úr Hagaskóla »

Lára Ósk skírð

Sigurður Árni Þórðarson @ 19.11 4/6/05

Lára Ósk og Lára frænka

Hún á þrjá bræður og býr í Skerjafirði. Á svölunum heima hjá henni er útsýn, víðsýn og breiðsýn. Í dag var henni veitt himinsýn, hún var skírð og heitir Lára Ósk. Foreldrarnir eru Margrét Gunnarsdóttir og Eyjólfur Gunnarsson. Einu sinni bjuggu þau og elsti drengurinn þeirra á miðhæðinni á Tómasarhaga 16. Þá kynntist ég þeim. En svo fóru þau á bernskuslóðir Margrétar, búa þar, njóta barnaláns og kunna að meta það.

Fjölmenni var í Bauganesi 6 í dag. Sólin baðaði bæði borg og fólk. Stofan varð hlið himins, vatnið glitraði í kristalskálinni frá Bæheimi. Söfnuðurinn söng allur skírnarsálminn Ó, blíði Jesú. Guðfeðgin lásu lestrana, þau Lára Gunnarsdóttir og Ottó Eðvarð Guðjónsson.

Margrét, Eyjólfur og Lára Ósk

Eyjólfur tók svo skírnarskálina og hélt á henni meðan dóttir hans var skírð. Margrét hélt á henni og Trausti bróðir ljómaði þegar hann sagði nafn systur sinnar. Guðmóðirin Lára, sem jafnframt er móðursystir, vissi ekki að systurdóttir hennar ætti bera hennar nafn í lífinu. Það var gaman að sjá hvernig vantrúarsvipur hennar umhverfðist í himneskt bros. Þær Lárurnar eru líkar!

Margrét og Eyjólfur eru öflugir uppalendur. Fjölskyldan er kraftmikil og frændgarðurinn glaður. Guð geymi Láru Ósk og varðveiti alla fjölskylduna. Megi þau öll njóta sólarsýnar í lífinu.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-06-04/19.11.33/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli