sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Ertu aurasál? · Heim · Fermingarbörn 2006 »

Ragnheiður Vala skírð

Sigurður Árni Þórðarson @ 17.03 29/5/05

Ragnheiður Vala og foreldrar

Veðrið í dag var undursamlegt. Eftir messu í Neskirkju fór ég yfir á Oddagötu 16. Þar var fjöldi fólks samankominn. Lítil prinsessa skyldi skírð og það meira segja undir berum himni. Skírnarþeginn heitir Ragnheiður Vala.

Foreldrarnir eru Höskuldur Eiríksson og Freyja Jónsdóttir. Þau komu upp í kirkju í vikunni til að fara yfir skírnarmálin og undirbúa athöfnina. Það var skemmtilegt að finna hversu samstillt og stefnuföst þau eru.

Veðrið var of gott til að skíra inni. Garðurinn var flott kirkja, hrossagaukur dýfði sér uppi í hvelfingunni og söng sálma, flugvél tók forspil niður á flugvelli. Í upphafi sungu Steinn Einar Jónsson og Alfreð Jóhann Eiríksson skírnarsálminn “Full af gleði yfir lífsins undri.” Höskuldur las biblíutextana og hélt á skírnarskálinni. Þetta var alveg eins og kirkjum fortíðar. Freyja hélt á dóttur sinni undir skírn. Kjóllinn var fallegur, síður og tjáði í fegurð sinni það vonarmál, að Freyja verði andlegt stórveldi.

Rgnheiður Vala, guðfeðgin og foreldrar

Afarnir og ömmurnar eru guðfeðgin, þau Þ. Maggý Magnúsdóttir, Jón Jóel Einarsson, Fríða Regína Höskuldsdóttir og Eiríkur G. Ragnarsson. Þau stóðu þarna hjá, öflugt, skemmtilegt og lífsreynt fólk.

Í lokin sungu allir sálminn “Ó, Jesú bróðir besti” og svo luku Ragnheiður Eiríksdóttir og Steinn Einar Jónsson þessari skírnarathöfn með Stefáns Hilmars-laginu “Líf.” Þau voru örugg, brostu til þeirrar stuttu sem brást við söngnum. Hallgrímur Óskarsson spilaði fagmannlega á gítarinn.

Með véladyn í nágrenni, tæknisetur Erfðagreiningarinnar handan við mýri, einbeittan frændgarð umhverfis, fljúgandi fiðrildi og bindisklæddan hund varð þessi garðkirkja sem tákn um samhengi Ragnheiðar Völu. Hún hefur allt til að bera til að verða öflug kona í nútímaheimi. Hið margbrotna líf iðar í kringum hana. En ekkert mun verða nema að hún njóti elsku, stuðnings og blessunar manna og Guðs. Henni fylgja bænir og hún er líka orðin fullgildur borgari eilífðar. Guð geymi hana og hennar fólk.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-05-29/17.03.45/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli