sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Viltu ný augu? · Heim · Hvað segir ferðasaga þín? »

Lúða í rasphjúp

Sigurður Árni Þórðarson @ 20.24 31/1/05

Fiskmáltíð gælir við heilbrigði. Matseldin er einföld og tekur ekki nema um tuttugu mínútur. Ágætt að muna við matseldina að fiskur gegnir táknhlutverkum í helgum ritum. Í spádómsbók Jeremía er endurkoma fiskimanna úr herleiðingu í Babýlon tákn um endurreisn.

Í draumi Ezekíels fyllast vötn frá musterinu alls konar veiðanlegum fiski. Eins og í flestum trúarbrögðum er helgi á fiski. Jesús matreiddi fisk með þeim glæsibrag að þúsundir nutu. Opinberunarfrásagnir minna á fisk og fiskát. Í frumkristninni varð síðan hið gríska heiti icþys jafnframt tákn kristinna manna og sem skammstöfun fyrir Jesús Kristur Guðs sonur, frelsari. En að matseldinni.

Hráefni

800-900 gr smálúða (má vera þorskur eða skötuselur líka)

2 msk olía

5-6 kokteiltómatar

rúnnstykki eða brauðendi

2-3 hvítlauksgeirar

kryddjurtir, ferskar ef til eru annars þurrar

2 tsk dijon-sinnep

Sítrónuvökvi af ½ sítrónu

smjörklípa

maldonsalt

nýmalaður pipar

Matreiðsla

Hita ofn í 200°C. Fiskurinn settur í smurt fat, kryddaður með salti og pipar og helmingurinn af hvítlauknum. Sítrónusafa hellt yfir og látið standa í stundarkorn. Síðan er olíu hellt yfir fiskinn og tómatbátum raðað meðfram fiski. Álpappír settur yfir mótið og skellt í ofninn.

Fiskurinn bakaður í um 10 mín og aðeins lengur ef stykkin eru þykk. Á meðan gefst tækifæri útbúa rasphjúpinn. Setjið brauðið í matvinnsluvél, afganginn af hvítlaukinn og krydd. Maukið. Eftir steikingu fiskjar er mótið tekið út úr ofninum og mylsnan sett yfir bæði fisk og tómat. Sett í ofn að nýju og steikt í 3-5 mínútum þar til mylsnan er gullin. Þá er bráðnu smjöri hellt yfir, ekki síst þar sem fiskurinn er undir. Setjið í ofninn að nýju í tvær mínútur.

Berið fram með salati.

Svo er það borðbænin: Fyrir allt sem mettar mann, mikla ríka gjafarann. Lof og dýrð sé Drottni.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-01-31/20.24.39/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli