sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Andabringa í upphæðum · Heim · Biblíusjón í Neskirkju »

Kjúklingur, núðlur og sveppir

Sigurður Árni Þórðarson @ 12.17 23/1/05

Einföld uppskrift, einföld matreiðsla og góð fyrir alla aldurhópa. Létt í maga, góð á bragðið og fáar hitaeiningar. Er þetta ekki ákjósanlegt? Við Litlabæjarfólk mælum með þessum rétti. Góð sunnudagsuppskrift!

Hráefni

2 rauðlaukar

3 cm engiferbútur

4 hvítlauksrif

2 kjúklingabringur, beinlausar og skinnlausar

300 gr sveppir, helst kastaníusveppir

2 msk olía

2 msk sojasósa

2 núðlupakkar með kjúklingabragði

krydd úr núðlupökkunum

1 ½ dl vatn

spínat, hnefafylli

Matreiðsla

Rauðlaukarnir skornir í tvennt og síðan þverskornir í þunnar flögur. Engifer rifinn og hvítlaukurinn smásaxaður. Þetta þrennt steikt í olíu í eina til tvær mínútur og síðan lagt til hliðar.

Kjúklingabringur þverskornar í þunnar sneiðar og sveppirnir skornir líka (ágætt að nota eggjaskera til að skera sveppi!). Bætt við olíu á pönnuna og kjúklingasneiðarnar steiktar báðum megin við háan hita. Kjötmagnið í einu skal ekki vera meira en svo að þið ráðið við að steikja – allt skal vera fallega jafnsteikt báðum megin. Hrærið oft í til að tryggja góða steikingu. Þegar allt kjötið er steikt er sveppunum bætt út yfir kjötið og steikt í viðbót í eina til tvær mínútur.

Síðan er lauknum bætt yfir, sojasósunni, kryddinu úr núðlupokunum og vatninu og soðið við meðalhita í tvær til þrjár mínútur.

Á meðan er sjóðandi heitu vatni hellt yfir núðlurnar og látið standa í þrjár mínútur. Núðlunum hellt í sigti, látið renna vel af þeim. Núðlunum hellt yfir allt í pönnunni, spínat sett á pönnuna líka og hrært í smástund, liðlega mínútu.

Uppskriftin er komin frá Nönnu Rögnvaldardóttur en aðlöguð að eigin sérviskum, eins og fleiri uppskriftir.

Borið fram með brauði og þakkað:

Þurfamaður ert þú mín sál,

þiggur af Drottni sérhvert mál.

Fæðu þína og fóstrið allt,

fyrir það honum þakka skalt.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-01-23/12.17.01/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli