sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Sigurður Viðar skírður · Heim · Kjúklingur, núðlur og sveppir »

Andabringa í upphæðum

Sigurður Árni Þórðarson @ 18.08 21/1/05

andabringa

Það er gaman að elda önd á föstudagskvöldi fyrir fólkið sitt. Hér er góð uppskrift og það var umlað við borðið. Á mínu heimili býr glatt veislufólk. Lífið er rétt og gott þegar það segir: “Þetta er nú það besta sem ég hef smakkað.” Ekki reyni ég lengur að spyrja hvort það sé besti matur í heimi eða besta andauppskriftin! Þegar hráefnið er gott, eldað með kærleika og alúð svíkur þetta ekki.

Andabringa snöggsteikt

Miðað er við að uppskriftin sé fyrir fjóra. Kaupið 800 gr andabringur. Ristið krossa (!) skinn/fitumegin og nuddið salti, pipar og möluðum einiberjum í skurðina. Steikið bringurnar á þurri pönnu með fituhliðina niður og steikið þar til skorpan harðnar. Snúið síðan við steikið stutt, en þó þannig að hinni hliðinni sé lokað. Steikið síðan í ofni 12-15 mínútur þar til kjarninn er liðlega 60°C

Sósan

Hér er skemmtileg sósa, sem ég var reyndar á varðbergi gagnvart. Svo kom hún skemmtilega út.

3 dl anda- eða kalkúnasoð

2 dl rauðvín (hægt að nota púrt)

1 msk balsamikedik

safi úr 2 appelsínum

safi úr 2 límónuávöxtum

safi úr 1 sítrónu

2 dl kókosmjólk eða eftir smekk

½ msk engifer

sulta – skv. smekk – ég nota gjarnan ribs eða sólberjasultu til að sæta hana og jafna.

Sjóðið allt niður um þriðjung og þykkið svo eftir smekk. Í sósuna má síðan setja í lokin 1 msk af köldu smjöri til að fá gljáa.

Þessa anda- og sósu-uppskrift fékk ég úr Matreiðslumeistarar og MasterCard, sem út kom fyrir jólin 2004, en auðvitað breytti ég uppskriftinni að eigin þörfum og smekk!

Meðlæti – rótargrænmeti

1,5 kg rótarávextir, t.d. steinseljurætur 5 stk skornar langsum

rauðbeður 2 stk

hálf gulrófa eða sæt kartafla

litlar kartöflur, skornar í tvennt

gulrætur langskornar

hvítlaukur, heill og grófrifinn

Lögur á rótargrænmeti

4 msk ólífuolía

½ msk balsamikedik

½ tsk þurrkað rósmarín

maldonsalt

svartur pipar grófmalaður

Bakað í ofni í 40-60 mínútur.

Þökkum Drottni því hann er góður.

Miskunn hans varir að eilífu.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-01-21/18.08.00/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli