sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Guð fjölbreytninnar · Heim · Pepperonipasta og sólþurrkaðir tómatar »

Þórður 15

Sigurður Árni Þórðarson @ 11.51 17/1/05

Þórður Sigurðarson 15 ára!Heillakarlinn hann Þórður átti fimmtán ára afmæli í gær, 16. janúar. Hann kom okkur á óvart og vildi bjóða öllum krökkunum í bekknum. En hvaða góð áform styður maður ekki? Svo kom hópurinn, sem var hrífandi. Afmælisbarnið geislaði, bekkjarfélagarnir glönsuðu og upplifun kvöldsins var frábær.

Norski snjóaveturinn hélt áfram á afmælisdegi. Það skóf af húsunum við Tómasarhagann, stemming var í lofti, ilmur í húsi og allt skipulagt að Elínarhætti – sem sé tilbúið meira en klukkutíma áður en veislan hófst.

Við höfum ekki áður haldið afmælispartí fyrir þrjátíu fimmtán ára ungmenni. Vorum ekki örugg um hver stíllinn yrði. Auðvitað vissum við vel, að krakkarnir væru öflugir, samkvæmt umsögnum þeirra skólamanna í Hagaskóla ein mestu ljós, sem verið hefðu í skólanum. En svo komu þau eitt af öðru. Afmælisbarnið stóð við dyrnar, heilsaði öllum með handabandi, átti hlý orð í allra garð. Svo skelltu þau sér úr vetrargallanum, vettlingar og treflar fóru á ofninn, yfirhafnir á snaga. Húsið fylltist af hlátrum. Svo var auðvitað fordrykkur í flautuglösum, allt þó í samræmi við aldurinn! Kannski fyrsta skrefið inn í fullorðinsstílinn.

Það var gaman að kynnast þessu mennilega fólki. Þau heilsuðu svo ákveðið, horfðu öll hiklaust í augu, svöruðu án heimóttarskapar, engir streitustælar og þorðu að fara eigin leiðir í samræðum. Við Elín vorum heilluð af þessum hópi, reisn þeirra og stæl. Saga, stórasystir, var okkur sammála. Kannski skiptir það máli að það eru konurnar, sem eru hinn afgerandi og stýrandi meirihluti bekkjarins, þær 22 og þeir 8. Kannski það sé hlutfallið, sem þarf til að hópur virki og stjórnun gangi? Bekkurinn er auðvitað ljómandi dæmi um kvenræði (ekki beint matríarkat!).

Þau þoldu að vera þrjátíu saman í einum bing, áttu ekki í vandræðum með líkamlega og félagslega návist hvers annars. Kvöldið leið svo í margbreytileika. Diskurinn hans Þórðar, Draumur víkingsins, sem hann gaf út fyrir jólin sló í gegn. Stelpurnar héldu að spilarinn hefði lært frá þriggja ára aldri! En þó hann hafi bara byrjað í haust í píanótímum hefur nikkunámið reynst honum vel sem grunnur að byggja á. Mér sýndist ég telja um 1500 stjörnur í augum stúlknanna. Pabbinn rogginn, en þó þakklátastur fyrir að Þórður er vænn efnismaður, hlýr, tillitssamur og fer vel með sínar talentur.

Elín hafði útbúið þríréttaða máltíð fyrir þessa afmælisveislu. Í ljós kom að skipulagið virkaði, ídýfa og snakk í upphafi með drykk, síðan góður pastaréttur. Auðvitað er nauðsynlegt að skipuleggja málin þannig að hægt sé að elda á venjulega eldavél veislu fyrir yfir þrjátíu og það á tiltölulega stuttum tíma. Svo voru til hliðar allir pizzu- og skinkusnúðarnir, sem höfðu verið bakaðir vikuna á undan og svo hin ómissandi Elínarbrauð sem voru þrettán þetta kvöld! Í eftirrétt voru lakkrís-smákökur, 150 stykki sem, úps, hurfu á 5 mínútum.

Þórður 15 settist svo í húsbóndastólinn. Pakkarnir! Loksins ertu orðinn fimmtán, kæri Þórður, var á vörum og merkimiðum. Drengurinn yngstur í sínum bekk, raunar ári á undan í skóla. Þessar líka gjafir, meira segja skyrta, sem hann fór í skólann í morgun. Öll hlógu, skemmtu sér og svo kossar um alla stofu, klöpp og skrall. Síðast var afmælisbarninu stillt upp á stól, allir sungu afmælissönginn. Svo eins og hendi væri veifað, allir heim kl. 10,50. Auðvitað, þetta er svo agað fólk, skipulagt, traust í sjálfu sér, drollar ekki þegar vinnudagur er framundan. Allir bekkjarfélagar komu, standa saman.

Gamla settið mjög hrifið. Takk Þórður 15 fyrir að hafa hvatt til svona veislu og leyft okkur að njóta svona hátíðar. Svo kunni hann að þakka svo vel fyrir sig. Svona veisla gerir sig ekki af sjálfu sér, en Litlibærinn var nú sem fyrr hús gleðinnar í afmælisveislu Þórðar.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-01-17/11.51.15/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli