sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Litania og samkirkjulegar bænir · Heim · Þórður 15 »

Guð fjölbreytninnar

Sigurður Árni Þórðarson @ 10.19 17/1/05

Tilveran er margbreytileg en Guð er einn. Berin á lífstré trúarinnar eru mörg en stofninn einn. Kirkjugreinarnar eru grúi en lífgjafi þeirra þó sá sami. Þessi kirkjubæn spratt fram við byrjun samkirkjulegrar bænaviku og flutt í upphafsguðsþjónustunni. Hún er dýrðarsöngur til hins eina og þrenna, sem allt er, öllu gefur líf, er einingin að baki fjölbreytninni.

Þú Guð, skapari alls sem er

Lof sé þér fyrir stórkostlega veröld.

Kenn okkur að fagna fjölbreytni og gleðjast yfir margbreytileika í náttúru, mannlífi og kirkjulífi.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. – Drottinn heyr vora bæn

Þú Guð réttlætis

Blessa öll þau, sem þjóna almenningi og þjóðum.

Veit íslenskum stjórnvöldum og forystumönnum auðmýkt og réttsýni í öllum störfum í almannaþágu.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn

Þú Guð frelsari

Þökk sé þér, að þú leysir okkur úr viðjum synda, misgerða, mistaka, vanmáttar og kerfa sem kúga.

Gef okkur vit til að gera upp verk okkar, þor til að viðurkenna brot og árangur, og von til að halda til móts við nýjan tíma með endurnýjaðan ásetning.

Þökk fyrir að þú komst, kemur og ert.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn

Guð heilagur andi

Vitja kirkju þinnar, allra greina á hinu mikla lífstré þínu.

Blessa alla starfsmenn, sjálfboðaliða, presta, forstöðumenn, biskupa, stjórnir, umsýslumenn.

Gef þeim anda þinn til þjónustu.

Blessa allar kirkjudeildir á Íslandi ræktunarstarfi í þínu ríki, meðal manna og í þágu fólks. Gef okkur umhyggju og elsku til hvers annars, stuðning og nærfærni í samskiptum.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn

Þú Guð, kærleiksfaðmur

Vitja sköpunar þinnar, vitja þeirra sem ógnarflóð veraldar hafa hrifið.

Styrk þau er hjúkra, hugga og bjarga.

Blessa þú öll þau er syrgja, eru sjúk, einmana eða afskipt.

Við nefnum nöfn þeirra í hljóði og berum fram fyrir þig —.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn

Þú Guð fjölbreytninnar – þú lausnari – þú elskuandi

Kenn okkur að vera farvegir ástarflóðs þíns –

þér til dýrðar, mönnum og veröld til lífs.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-01-17/10.19.53/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli