sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Sigríður í Görðunum látin · Heim · Guð fjölbreytninnar »

Litania og samkirkjulegar bænir

Sigurður Árni Þórðarson @ 09.53 17/1/05

Fulltrúar kirkna í Slóvakíu undirbjuggu efnið, sem notað er á bænaviku um allan heim. Meðal efnis eru ýmsar bænir, s.s litanía, ákall til Guðs um hjálp og lausn. Litanían segir hjálparsöguna í fyrstu persónu og bænin því innlifuð máttarverki Jesú Krists. Þar með verður Guðsverkið miðlægt og dregur algerlega fram hvað hið kirkjulega er og setur kirkjudeildirnar í rétt samhengi. Bænavikan hófst með guðsþjónustu í Neskirkju 16. janúar Ég þýddi litaníu og aðrar bænir úr hinu slóvakíska efni og það fer hér á eftir.

Litanía

(Lesarar eru tveir og merktir með L1 og L2. Þeir lesa í víxllestri og söfnuður svarar með: Dýrð sé þér Drottinn).

L1 Vegna þess að ég elskaði ykkur, fæddist ég í Betlehem. Ég var kallaður Imanúel, því ég er Guð meðal ykkar manna, um allar aldir.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L2 Ég var skírður í vatni í ánni Jórdan, til tákns um þá skírn sem hreinsar og endurnýjar alla menn.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L1 Andinn leiddi mig út í auðnina þar sem ég mætti freistaranum, vann sigur og frelsaði menn úr viðjum hins illa.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L2 Ég flutti gleðifréttir um Föðurinn, ríki miskunnar, mildi, ástar, sannleika, friðar og gleði. Ég gerði tákn hinnar nýju aldar, hendur mínar læknuðu hina veiku og nærvera mín færði fólki frið.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L1 Ég kallaði ykkur saman, eins og móðir kallar börn sín, eins og hirðir safnar saman fé sínu. Ég vildi taka ykkur í fang mitt og bera alla leið inn í himininn.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L2 Ég braut brauð og bauð nýtt vín til að grundvalla samfélag ykkar og gefa lífi ykkar fyllingu. Ég bað Föðurinn um að fögnuður minn mætti búa meðal ykkar.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L1 Ég dó á timburkrossi til að syndir ykkar yrðu fyrirgefnar og til að kalla saman villuráfandi börn til Föðurins að nýju og til að opna hlið Helju. Á þriðja degi reis ég upp frá dauðum.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L2 Frá hásæti himins úthelli ég hinum helga Anda mínum. Hann minnir ykkur á hvað ég hef kennt ykkur. Hann er andi lífsins, ljós, huggun, máttur til vitnisburðar og andi bænar.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn.

L1 Hlustið, lýður Guðs, ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar, til að þið megið vera eitt með mér eins og ég er eitt með Föðurnum og veröldin megi trúa. Hlustið á rödd mína, fylgið mér svo þér megið vera mitt fólk, mín hjörð og ég megi vera hirðir ykkar.

Söfnuður: Dýrð sé þér Drottinn. Blessaður sé Guð og faðir Drottins Jesú Krists, sem fyrir Krist hefur blessað okkur með hvers konar andlegri blessun.

Bænir

L1 Drottinn þú ert friður okkar og réttlæti.

L2 Fyrirgef okkur Drottinn, fyrir að magna öfund og óvild milli kirkna í stað gagnkvæmrar virðingar og umhyggju.

L1 Drottinn þú úthellir gnótt yfir okkur í trúareiningu.

L2 Fyrirgef okkur Drottinn, að við drögum okkur oft hlé, lokum fyrir hverju öðru og lokum leiðum milli kirkna og trúarsamfélaga.

L1 Þú hefur glatt hin döpru, leyst bandingja úr viðjum og fangelsi og fyrirgefið syndurum.

L2 Fyrirgef þú, Drottinn, að við höfum oft verið skeytingarlaus um þarfir annarra og snúið baki við hinum líðandi.

L1 Drottinn, þú hefur safnað okkur saman eins og hirðir kallar saman hjörð sína. Þú hefur fundið þau sem hafa farið villur vega.

L2 Fyrirgef okkur Drottinn, að við höfum villst frá þér og þar með tapað sjónum af systrum og bræðrum.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-01-17/09.53.17/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli