sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Athvarf þitt, þjóðar og kynslóða · Heim · Var Guð í flóðinu? »

Þú Guð eilífðar – vitja tímans barna

Sigurður Árni Þórðarson @ 16.16 2/1/05

Þú Guð sem skapar tíma. Í þinni hendi eru stundir og ár, ævi og kynslóðir. Gef okkur mönnum viturt hjarta. Vitja sköpunar þinnar. Tak þau í þitt fang, sem látið hafa líf í flóðum í Asíu. Vitja þeirra sem syrgja og gráta. Styrk þau er hjúkra, hugga og bjarga. Áramótabænin við árslok 2004 spratt upp í skugga hörmunga og kvíslaðist inn í ársuppgjör frammi fyrir Guði.

Þú Guð sem skapar tíma

Í þinni hendi eru stundir og ár, ævi og kynslóðir

Gef okkur mönnum viturt hjarta.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn.

Þú Guð, kærleiksfaðmur

Vitja sköpunar þinnar.

Tak þau í þitt fang, sem látið hafa líf í flóðum í Asíu.

Vitja þeirra sem syrgja og gráta.

Styrk þau er hjúkra, hugga og bjarga.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn.

Þú Guð eilífðar – vitja tímans barna

Gef okkur vit til að gera upp ársverk okkar,

Þor til að viðurkenna bresti, brot og árangur,

og von til að halda til móts við nýjan tíma með endurnýjaðan ásetning,

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn.

Þú Guð réttlætis

Blessa öll þau sem þjóna almenningi og þjóðum.

Veit íslenskum stjórnvöldum og forystumönnum

auðmýkt og réttsýni í öllum störfum í almannaþágu.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn.

Guð heilagur andi

Vitja kirkju þinnar, óvígðra og vígðra starfsmanna, sjálfboðaliða,

stjórna, umsýslumanna. Gef þeim gott kirkjuvit í allri þjónustu.

Blessa allt sóknarfólk og starfsfólk Neskirkju.

Vernda allt þetta fólk á nýju ári og efl það til lífs.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn.

Þú Guð allrar líknar

Blessa þú öll þau er syrgja, eru sjúk og hrum, einmana eða afskipt.

Vitja þeirra. Við nefnum nöfn í hljóði og berum fram fyrir þig.

Fyrir Drottinn vorn Jesú Krist. Drottinn heyr vora bæn.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2005-01-02/16.16.54/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli