sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Tilgangur og kirkjuréttur · Heim · Harry Potter og aðventan »

Fasanabringur og rótarávextir

Sigurður Árni Þórðarson @ 13.46 21/11/04

Ég eldaði fasanabringur fyrir konu mína á föstudagskvöldið og fékk prik fyrir. Hverfisverslanirnar hafa verið með tilboð á framandi fuglum og sjálfsagt að láta freistast. Fasanakjöt er ljómandi, auðvitað villibráð en þó ekki eins rífandi bragðmikið og gæsakjöt. Ég hef prufað kjúklingauppskriftir en betra er að fara í villibráðarátt. Að fara í einiberjarunn er einföld og góð leið.

Hráefni, miðað við 4.

4 fasanabringur

Maldonsalt

Svartur pipar

10 stk mulin einiber

Beikon (2-3 sneiðar á hverja bringu)

8 hvítlauksrif óskræld

1 gulur laukur

2 rauðir laukar

4 skalottulaukar

Bringurnar kryddaðar vel og pönnusteiktar til að loka kjötinu. Síðan eru þær settar í eldfast fat, beikon raðað ofan á og steikt í ofni í 25 mínútur. Síðustu mínúturnar er beikonið tekið af. Hvítlaukurinn og skalottulaukur eru ekki skrældir, en hinir laukarnir grófskornir.

Sósa

1 askja nýir sveppir

200 ml kjúklingasoð

1 peli rjómi

Smjörsteikið sveppina hægt og lengi. Blandið á meðan kjúklingasoðið. Rjóminn út í soðið og allt soðið niður. Sveppirnir út í . Þegar fasanasteikingin er langt komin er soðinu úr eldfasta fatinu fleytt af og síað í sósuna. Síðan þarf að krydda til. Bragðið úr steikingunni getur verið kröftugt og því er best að bíða með kryddun þar til í lokin. Hægt að dekkja sósuna og rífa hana svolítið upp með rauðvíni, púrt eða Madeira.

Gott að bera fram með þessum rétti bakaða rótarávexti. Hér er ljómandi uppskrift frá Rán og Nick, sem reglulega gefa okkur nýjar víddir í eldhúsið.

Rótargrænmeti

1,5 kg rótarávextir, t.d. steinseljurætur 5 stk skornar langsum

Rauðbeður 2 stk

Hálf gulrófa eða sæt kartafla

Litlar kartöflur, skornar í tvennt

Gulrætur langskornar

Hvítlaukur, heill og grófrifinn.

Lögur

4 msk ólífuolía

½ msk balsamikedik

½ tsk þurrkað rósmarín

Maldonsalt

Svartur pipar grófmalaður

Bakað í ofni í 40-60 mínútur. Svo er bara að þakka fyrir hið daglega brauð og njóta.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-11-21/13.46.15/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli