sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Gulrótasúpa með döðlum og karrí · Heim · Fasanabringur og rótarávextir »

Tilgangur og kirkjuréttur

Sigurður Árni Þórðarson @ 09.47 20/11/04

skírnarfontur

Þar sem engin markmiðsgrein er í kirkjulögunum má gera ráð fyrir að löggjafinn reikni með að eitthvað inntak sé í hugtakinu evangelísk-lútersk, sem stjórnarskráin nefnir. Hins vegar má ætla að löggjafinn leggi kirkjunni sjálfri á herðar að skilgreina markmið sín og tilgang.” Hugleiðingar um tilgang kirkjustarfs eru mikilvægar og varða regluverk kirkjunnar.

Tilgangur og kirkjuréttur

Þegar tekist var á um markmiðsgrein grunnskólafrumvarpsins árið 1974, taldi þingmaðurinn Svava Jakobsdóttir sér skylt að fá skýringar á lykilhugtökum frumvarpsins. Ekki hafði hún neitt sérstakt að athuga við ákvæðin um lýðræði og umburðarlyndi. En í plagginu sagði einnig, að skólastarfið ætti að einkennast af kristilegu siðgæði. Hún spurði hvað þetta kristilega siðgæði þýddi. Fyrir svörum varð Eysteinn Jónsson, bróður prestsins í Hallgrímskirkju, sr. Jakobs Jónssonar. Eysteinn var ekkert að leggja í miklar skýringar og sagði við bróðurdóttur sína: “Spurðu hann pabba þinn.” Þar með var þeirri orðræðu lokið.

Þegar mér er ætlað að rýna í lög og regludrög hins merka og stækkandi regluverks kirkjunnar finn ég mig í sporum Svövu. Hvað þýðir þetta og hitt í þessum mikla bálki. Og menn svara: Hvað, skilur þú þetta ekki, ertu ekki prestur? Og svo er umræðunni lokið. En ég hef engan prestspabba til að hlaupa til og tel enda mikilvægt að spyrja frumspurninga, þó þeim sé vandsvarað.

Ég hef hugsað mér að beina sjónum að markmiðsþáttum reglusafnsins fyrst og fremst, huga að forsendum eða jafnvel forsenduleysi. En áður en svo verður gert er rétt að nokkur atriði komi fram um heildarviðhorf mitt til laganna nr. 78/1997 og þeirra draga að starfsreglum, sem kynnt hafa verið á fundum með prestum og sóknarnefndarmönnum á liðnum mánuðum.

Kirkjunni hagnýtt

Kirkjuréttur hinn nýi er án efa einhver merkasta hagsbót, sem kirkjunni hefur hlotnast um áratugaskeið, jafnvel um aldir. Staða hennar í íslensku samfélagi er skýrð um margt. Ef ríki og kirkja verða aðskilin í framtíð, verður kirkjan mjög vel undirbúin. Búast má við, að megnið af reglunum, sem þegar hafa verið samdar, verði samþykktar í endurbættri útfærslu og ljóst fleiri koma í kjölfarið. Kirkjustofnunin fær vinnulag og afgreiðsla mála verður skýrari. Ljósara verður hver ber ábyrgð á málum og hvernig ber að reka þau. Ef einhver þarf að kæra einhvern verða farvegir til. Regluverkið verður því eins og góðar umferðarreglur eða reglur húsfélags, sem hefur dregið heim lærdóm rifrilda og átaka fortíðar og lært af mistökum. Þegar öll plöggin eru lesin í belg og biðu læðist þó að sá grunur, að það sé erfðasyndin sem sé aðalviðfang. Það er sem sé ítarlega fjallað um hvernig á að taka á ágreiningsmálum, ýmislegt er sagt til að sporna við óreiðu af ýmsu tagi, í fjármálum, skipulagsmálum, verkaskiptingum og stjórnun. Það er eins og skeið hins bjartsýna, bláeyga og hjartahlýja kirkjutíma sé að baki. Fólk, sem starfar í þágu og á vegum kirkjunnar, getur lent í ýmsu misjöfnu. Á því skal tekið – regluverkið er leiðabók hinna fullorðnu, margsjóuðu, sem láta ekki bjóða sér vitleysu. Sem slíkt er það gott, mikilvægt og kirkjunni handhægt. Það væri hægt að draga fyrir egg og segja að regluverkið sé eins og húsreglur fyrir upptökuheimili til að hægt sé að halda skipulögðum friði. Sem presti finnst mér það ekki góð samlíking.

Hið almenna gildi

En það er ennfremur hægt að spyrja allt öðru vísi spurninga. Eru þetta sérlega kirkjuleg lög og reglur? Væri hægt að nota regluverkið í öðru samhengi? Gæti skipafélagið Eimskip notað reglur kirkjunnar og breytt aðeins heitum þar sem við á? Í stað biskups kæmi forstjóri, fyrir vígslubiskupa kæmi aðstoðarforstjórar, í stað kirkjuráðs kæmi stjórn Eimskips, í stað kirkjuþings kæmi hluthafafundur. Í stað kirkjulegrar starfssemi kæmi skipaútgerð. Ég fæ ekki betur séð að þetta sé að mestu leyti hægt. Regluverkið hefur sem sé fyrst og fremst það hlutverk að vera rammi um starf, leikreglur, ferlaákvörðun, vélbúnaður starfsins, stjórnkerfi. Verkið varðar stóra stofnun, sem þarf að reka vel og hnökralaust. Það hefur lítið að segja okkur um inntak, markmið og tilgang þeirrar stofnunar. Þess vegna gæti Eimskip hugsanlega grætt á að fara yfir þessar reglur og notað það besta. Ríkisútvarpið gæti einnig notað kerfið að mestu. En líklega þætti mörgum í einkageiranum þetta viðamikla verk of flókið og þungt í vöfum og vildu fara styttri leiðir. En það er nú einu sinni svo að kirkjan verður að taka bæði tillit til mennskunnar, kærleikans, laga ríkis og réttlætis. Stjórnendur einkageirans geta á stundum farið yfir smærri ála.

Markmið og tilgangsleysi

Svava Jakobsdóttir vildi skýringar á markmiðsgrein grunnskólalaganna. Ef við viljum ræða markmið kirkjureglnanna fáum við ekki einu sinni pabba á okkur. Það eru engin markmið í lögunum nýju og næsta lítið í regludrögunum. Það finnst mér íhugunarvirði. Það er auðvitað útúrsnúningur að segja að regluverkið og lögin þar með talin séu tilgangslaus. En lestu grannt og skýrðu fyrir mér hvernig er fjallað um markmið. Það er að vísu margt sagt um leiðir en lítt til hvers og í hvaða átt þær stefna. Undarlegt örlæti er það, að löggjafinn leggi með fjárframlögum engar skyldur á herðar kirkjunni og starfsmönnum hennar. Í lögum um skóla er markmiðsgrein, um Ríkisútvarpið einnig. Framlögin eiga sér þar tilgang og hægt er að meta hvort auka eigi við eða minnka í samræmi við forsendur og efndir. En við vitum ekkert um til hvers eigi að nýta framlög til kirkjunnar. Réttindi kirkjunnar eru skýr en hverjar eru skyldurnar? Þegar starfsregludrögin eru lesin blasir líkt við. Reglurnar eru að mestu tilgangslausar.

Þar sem engin markmiðsgrein er í kirkjulögunum má gera ráð fyrir að löggjafinn reikni með að eitthvað inntak sé í hugtakinu evangelísk-lútersk, sem stjórnarskráin nefnir. Hins vegar má ætla að löggjafinn leggi kirkjunni sjálfri á herðar að skilgreina markmið sín og tilgang. Því er sýnu mikilvægara að starfsreglur kirkjunnar verði vel úr garði gerðar.

Starfsreglur og tilgangur

Í starfsregludrögum um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma er ekkert sagt um tilgang sóknar eða starfseininga. Af hverju er miðað við 4000 manns í sókn að jafnaðarhámarki. Hefur biskupafundur enga kjötmeiri guðfræði til að grunda tillögur um sóknabreytingar en það sem tíundað er í drögunum: Hagkvæmnisástæður, mannfjöldabreytingar, samgöngur, staðhætti eða aðrar aðstæður? Lögin segja, að kirkjuþing fari með æðsta vald í málefnum kirkjunnar. Starfsregludrögin um þingið eru ágæt, en þau segja okkur ekkert um tilgang þingsins umfram það sem lögin kveða á um, enda varla þess að vænta.

Kirkjuþingi er ætlað að vera valdsins makt en ekki fæðingarreitur trúarvits. Alla vega er það ekki tjáð.

Í starfsreglum um leikmannastefnu er hins vegar markmiðsgrein. Þar segir, að tilgangur leikmannastefnu sé að efla þátttöku óvígðra manna í starfi kirkjunnar, gera tillögur til biskups, kirkjuþings, prófastafunda og héraðsfunda, sem og fjalla um mál sem vísað er til leikmannastefnu. Meira er það ekki og Svava gæti spurt.

Þess er að vænta, að drög að starfsreglum um presta, prófasta, sóknarnefndir og héraðsfundi séu djúpristari. Svo er, en þó vantar mjög á að rætt sé meðvitað um markmið og tilgang embætta.

Gert er ráð fyrir, að sóknarnefndir fylgi eftir markaðri stefnu og ákvörðunum aðalsafnaðarfunda, en ekkert nánar skýrt hvað það þýðir. Einnig segir, og endurómað er kunnuglegt orðalag, að sóknarnefnd, hafi ásamt prestum, forgöngu um kirkjulegt starf á vegum sóknarinnar og styðji annað kirkjulegt starf í sókninni. Sem fyrr skortir að farið sé að baki og skýrt við hvað sé átt, þ.e. markmið séu útfærð nánar. Ég vil þó vekja athygli á hinni mikilvægu viðbót, að sóknarnefndum er ætlað að gera rekstraráætlun sóknar fyrir hvert almanaksár. En hins vegar spyr ég hvernig sé hægt að vinna slíka áætlun, ef sóknarnefnd spyr ekki um markmið starfa. Hætt er við, að íhaldssemin ráði, gömlu leiðirnar verði farnar og kannski sett eitthvað í gæluverkefni prestsins, nánast eins og um ölmusu væri að ræða. Það er niðurlægjandi, að prestar þurfi að nánast að réttlæta mikilvæga starfsþætti og biðja eins og börn. Setja ætti í reglur um sóknarnefndir, að þær eigi að fjalla um markmið sóknarstarfsins, annars verður rekstraráætlun, byggingaáætlunin, mannahaldið í óljósum og metnaðarlausum farvegi. Hiklaust ætti að bæta við hin 19 tölusettu verkefni aðalsafnaðarfundar, að hann fjalli um tilgang kirkjustarfsins, markmið og ekki aðeins leiðir.

Hlutverk prests

Í regludrögunum um störf presta er margt bitastætt og til bóta. Prestsembættið er auðvitað mótað langri hefð, vígsluheiti og embættisbréfi svo sem þessari samkomu er gjörkunnugt um. Hins vegar hefur mér sýnst á ferðum um landið, við skoðun á störfum og starfsvettvangi presta og með vísan í æ flóknari aðstæður og félags- og menningarbreytingar, að full þörf sé á að prestar fái betri skilgreiningar á störfum sínum, réttindum og skyldum. Hin almenna grein um prestsembættið í drögunum vísar almennt út fyrir sig og tekur ekki á nema nokkrum ósvissumálum. Það er beinlínis nauðsynlegt vegna fjölgunar starfsmanna kirkjunnar, styrkari sóknarnefnda, batnandi fjárhags stærri sókna og fjölþættra þarfa, að það sé skýrt hver hlutverk prestsins séu.

Er það hlutverk prestsins einnig að vera forstjóri stórs fyrirtækis eins borgarsöfnuðirnir eru? Á hann eða hún að skipta sér af starfsmannahaldi og þá hvernig? Á presturinn að vera andlegur og veraldlegur snillingur á öllum sviðum, ofurmenni sem vinnur tvöfaldan vinnudag, heldur alltaf kúrs, fullur orku, húmors, mannvits og andlegrar spektar. Ef presturinn bregst væntingum hlýtur ekki sektarkenndin að læðast að með útbruna og stöðnun? Meðan markmið safnaðarstarfs er óljóst verður presturinn í óljósri stöðu og hlýtur að bregðast. Til að lenda ekki í útistöðum reynast hefðbundnu starfsþættirnir þrautalendingin, stöðnun eða trúnaður við hefð meginreglan. Hvað verður þá um áherslu siðbótar, ecclesia semper reformanda.

Til að hægt sé að gera guðfræðimenntun skilvirkari, starfsþjálfun marksæknari, og handleiðslu og símenntun betri og prestsstarfið gæfulegt þarf að vera ljóst til hvers menn eru að verki. Því verki er ekki lokið varðandi prestatilgangsþátt starfsdraganna. Hið sama gildir um starfsreglur prófastanna, þó í öðru sé.

Réttsýni eða puð á röngum forsendum

Það var eitt sinn strákur vestan hafs, sem átti í mesta basli með stærðfræðinám sitt. Foreldrarnir reyndu allt hvað þau gátu, hjálpuðu við heimanámið, skömmuðust, reyndu fagurgala, nudduðu í kennurum og leituðu til námsráðgjafa. Allt kom fyrir ekki. Að lokum gáfust þau upp, tóku drenginn úr skóla og ákváðu að koma honum í kaþólskan einkaskóla. Eftir fyrsta skóladaginn kom hann heim, fór beint í herbergi sitt og tók til við heimanámið, foreldrunum til mikillar furðu. Hann varð mauriðinn. Prófin voru tekin á réttum tíma. Að þeim loknum rétti drengur foreldrum sínum einkunnablaðið. Þau sáu sér til mikillar ánægju að hann hafði fengið 10 í stærðfræði og ágætt í öðrum greinum. Uppveðruð spurðu þau: Hvernig stendur á þessum góðu einkunnum? Var það kennslan, nýjar kennslubækur, meiri stuðningur, betri kennarar? “Nei,” sagði strákur. Þegar ég kom inn í forstofu skólans sá ég að nunnurnar höfðu fest mann á risastórt plúsmerki. Þá vissi ég að þeim var alvara.

Maður á plúsmerkinu. Strákurinn tók viðbragð vegna hræðslu og lifði síðan í hræðslunni. Hann skildi aldrei inntak krossins. Við getum lent í sömu stöðu ef við ekki gætum að okkur. Það er athyglisvert að í þeim hluta kirkjuréttardraganna sem þegar liggja fyrir, sem og lögum, telst mér til að vikið sé að ágreiningsefnum og úrlausn þeirra 14 sinnum. Viljum við að hræðsla við óreiðu og átök sé rammi og samhengi kirkjulífsins. Er það syndin sem magnar kirkjuna, okkur til starfa – eða er það annað og meira, Guð, ástgjöf himins, sem hrífur okkur veil til máttarverka. Er það gleðin yfir því að þrátt fyrir allt sem á dynur í lífinu er gæskan máttugri ósátt, lífið sterkara en dauðinn, að Guð elskar og réttar hönd sína til hjálpar.

Það er íhugunarefni að í kirkjurétti hinum nýja er Guð faðir aldrei nefndur á nafn. Þar er enginn Sonur og enginn Andi. Ekkert er beint vikið að bænahaldi og ritningarlestri. Skírn eða útför aldrei nefnd beinum hætti og ekki sálgæsla. Á einum stað er ýjað að þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Í því tilviki er rætt um ákvæði í erindisbréfi presta um samveru með slíkum og því hnýtt við að það sé að höfðu samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisyfirvöld!

Hlutverk kirkjunnar

Niðurstaða mín er sú að markvisst verði að endurskoða starfsreglunnar og huga að tilgangi, setja markmiðsgreinar til að leiðirnar eigi sér forsendu. Tilgangshyggjan þarf að verða inngrópuð í allt okkar starf og starfsreglur. Ég er þó ekki viss um að við þurfum að verða einsýn í þeim efnum. Prestar hafa mismunandi hugmyndir um tilgang og starfshætti mismunandi safnaða. Það er vel hugsanlegt að markmið, alla vega undirmarkmið, í litlum sveitasöfnuði séu önnur en í stórum borgarsöfnuði. Starfaskilgreiningar yrðu þá einnig ólíkar. Tími fjölbreytninnar er upp runninn, Guð hefur skapað fjölbreytilegan heim og kirkja heimsins er marglit. Sá fjölbreytileiki má gjarnan speglast í störfum þjóðkirkjunnar. En til að menn elti ekki mýrarljós, verður að marka stefnu.

Kirkjan er að vinna að mestu hreingerningu í húsi sínu um áratugi, jafnvel árhundruð. Það er vor í kirkjunni. Sinnum vorverkunum vel, og gerum það ekki í ótta við hret og illviljaða nágranna, heldur í trú á Gjafarann allra gæða. Verum markviss, sjáum krossinn og hinn upprisna í plúsmerkinu, Guð sem úthellir ljósgeislum yfir nýgræðinginn, okkur.

PS

Þessi hugleiðingu flutti ég á prestastefnu 1998 og sýnist að meginspurningarnar séu fullgildar fyrir starfsreglur kirkjunnar sem nú gilda og gagnvart kirkjustarfinu. Alla vega hef ég hugsað mér að nota þessar vangaveltur fyrir mitt núverandi starf og spyrja um tilgang þess!

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-11-20/09.47.31/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli