sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Verkefni dagsins er… · Heim · Tilgangur og kirkjuréttur »

Gulrótasúpa með döðlum og karrí

Sigurður Árni Þórðarson @ 19.05 18/11/04

gulrætur í súpuna

Súpudagar Sigurðar eru háðir þessar vikurnar! Þegar ég var búinn að spyrja fermingarbörnin fór ég heim og eldaði eina af uppáhaldssúpum okkar Litlabæinga, sæta og bragðsterka gulrótarsúpu. Hún er hitaeiningasnauð, trefjarík og gælir við hjartað.

Ég hef eldað hana stóra hópa, fyrir svanga göngugarpa, þ.e. Derringa í Noregi, kirkjulistahátíðarfólk við upphaf trúarskoðunar Ingmar Bergman. Súpan dugar sem hátíðarmatur sem og súpa í miðri viku!

Það var svo mikil gulrótaruppskera í haust hjá okkur að ég gerði margfalda uppskrift nú í nóvember og frysti nokkra skammta. Búkonuandinn lengi lifi.

Hráefni

2 msk ólífuolía

4 hvítlauksrif

1 laukur

3 sellerístönglar

1 msk ferskrifin engiferrót

2 msk hveiti

12 dl kjúklingasoð

400 g gulrætur

1 tsk karrí

1 tsk kúmmínduft

½ tsk svartur pipar grófmulinn

1 dl döðlur

1 msk sítrónusafi

1 dl AB- mjólk

gulrætur úr garðinum og í súpuna

Hitið olíuna í potti. Merjið hvítlauk, saxið lauk og sellerí og bætið út í ásamt rifnu engifer. Hitið í 3-4 mínútur í olíunni og hrærið vel. Takið af hitanum og stráið hveiti yfir. Hitið í tvær mínútur til viðbótar og hrærið vel. Hellið nú kjúklingasoði í mjórri bunu út í súpuna og hrærið vel.

Rífið gulræturnar (ég nota orðið matvinnsluvél þegar heill hópur er boðin í súpu, líka til að rífa lauk og sellerí), bætið út í súpuna ásamt karrí- og kúmín-dufti og pipar og hleypið upp suðu. Lækkið hitann og látið súpuna malla í tíu mínútur. Bætið söxuðum döðlum útí og látið malla áfram í fimm mínútur.

Hellið súpunni í matvinnsluvél og maukið. Hellið aftur í pottinn og hitið. Bætið sítrónusafa saman við.

Ausið súpunni á diska. Setjið 1 msk af AB- mjólk á hvern disk og búið til ævintýraleg mynstur með gaffli.

Mæli með að bera fram nýbakað focacciu-brauð með.

Leyfið súpunni að standa nokkrar mínútur á diskunum, því hitinn er jafnan mikill. Og svo er gott að staldra við og leyfa þessu andvarpi að líða inn í himininn:

Blessa Drottinn, föng vor hér,

að þessi þinna gjafa gnótt

oss gefi næring, heilsu, þrótt.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-11-18/19.05.23/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli