sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Flatfiskrúllur · Heim · Líf í hendi – kristniboð »

Steinbærinn í sparifötum

Sigurður Árni Þórðarson @ 17.39 13/11/04

nýr baðstofugluggi

Að vera húseigandi þýðir viðhald. Að eiga þriggja alda hús merkir mikið viðhald. Búið er að byggja við en nú er búið að loka hringnum. Litlibær, gamli steinbærinn, naut í haust dekurdaga. Nú er búið að fjarlægja allt gamalt járn, allar fúaspýtur, endurbyggja eða styrkja veggi, skipta um glugga og kjallarahlera, endurnýja kápu og járna að nýju. Litlibær brosir við öllum heiminum að nýju.

Gunnar Bjarnason, einn mesti völundur þjóðarinnar, er sem fyrr ábyrgur fyrir öllum framkvæmdum í Litlabæ. Undir hans stjórn voru þeir Ólafur Ólafsson og Fáfnir Árnason. Svo var rifið og íhugað. Grétar Markússon, arkitekt, var til ráðgjafar að venju, sem og Magnús Skúlason hjá Húsfriðunarnefnd. Litlibær er steinbær og það verður að vanda alla framkvæmdaþætti. Heimafenginn smekkur fær ekki að taka ráð af fagrágjöfinni.

allt ónýtt rifið burt

Mamma og pabbi vissu vel að timburverkið væri lélegt. Mamma sagði á sínum tíma og brosti: “Þetta hangir uppi af gömlum vana. Ef þið hróflið við því verður gera við allt!” Það var rétt, ástand hússins var verra en ég átti von á og viðgerðin því meiri en séð var fyrir. En nú er hún búin utan húss. Gluggarnir eru vel smíðaðir, vandað var til allra viðhaldsþátta.

Nú er enginn dragsúgur lengur í Litlabæ, húsið er þétt. Hitinn er jafn. Ekki næðir lengur í kolakjallaranum. Það er gaman að horfa á gluggana innan frá. Ekki lengur mosaskán á bak við gluggalista. Engin barátta lengur við geitunga, sem vildu byggja sér bú í veggjunum. Nú er bara eftir að ganga frá smáviðgerð innanhúss og mála gluggana þegar sól hækkar á lofti. Nýklæddur bærinn ljómar þegar sólin skín, gleður heimilisfólkið og gleður líka húsbóndann, sem var alinn upp í þeim anda að það skuli vanda sem lengi á að standa.

Húsafriðunarsjóði er þakkað fyrir framlag við viðgerð, Húsverndarsjóði fyrir styrk til gluggasmíðinnar og arkitektum ráðgjöfin. Gunnari og hans góðu mönnum skal enn þakkað fyrir smíðar. Verkið lofar meistarann nú sem fyrr.

Þórður Sigurðarson, fjórði íbúinn í beinan karllegg, fagnar ásamt vini sínum Sigursteini Gunnarssyni. Þórður afi fæddist þarna undir súðinni svo Þórður yngri er á heimaslóð!

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-11-13/17.39.53/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli