sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Fyrirgefðu · Heim · Tólf trúartengi »

Búkona í slátri og berjum

Sigurður Árni Þórðarson @ 20.40 18/10/04

Svanfríður KristjánsdóttiSláturtíðin er langt komin. Skynsamir fara í Hagkaup í Skeifunni og ná sér í þrjú eða fimm slátur. Mamma fór í fyrra en ekki í ár. Nú er hún látin. Tíminn og kuldinn vekja angurværar minningar um búkonuna, sem ekki unni sér hvíldar fyrr en hauststörfin voru unnin, tunnur fullar og enginn myndi svelta. Hér á eftir eru minningar um mömmu úr bernsku minni.

Væna konu

10. Væna konu, hver hlýtur hana? hún er miklu meira virði en perlur.
14. Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að. Kraftur og tign er klæðnaður hennar, og hún hlær að komandi degi.
26. Hún opnar munninn með speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.
27. Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar, og etur ekki letinnar brauð.
28. Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni:
29. Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!
30. Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast Drottin, á hrós skilið.

(Úr 31. kafla Orðskviðanna)

Sláturtíð á hausti

Mamma var búkona. Kjöt og slátur sótti hún inn á Kirkjusand. Hvert haust keypti hún marga skrokka og ólýsanlega mikið magn af innmat. Halldór, nágranni okkar sem reyndar kenndi á bíl í tómstundum sínum, afgreiddi vörurnar. Hann sá til þess að mamma fengi góða skrokka og meira blóð en var í venjulegum sunnlenskum lömbum. Þau voru sveitafólk og vissu hvað var mikið blóð í lambi og Dóri var alveg til í að láta mömmu hafa jafn mikið blóð og var í norðlenskum lömbum! Halldór vissi líka hvað var gott kjöt og hvað ekki.

Þegar kjötmetið var allt komið heim hengdu foreldrar mínir á sig miklar svuntur og gripu síðan stóru hnífana. Skrokkana hengdu þau upp í hlöðu og hlutuðu þá síðan niður efir kúnstarinnar reglum. Kjötinu var svo raðað í græna tunnu, sem var fyrst í hlöðuhorninu en var síðar notuð sem kartöflutunna. Mamma saltaði og stráði saltpétri milli laga. Ungsveininum fannst þetta áhugavert atferli en dálítið rosalegt. Saltkjötið var síðan veitt úr grænu kjöttunnunni um veturinn.

Berjaflóð

Eitthvað af búkonuandanum hefur smitast til mín. Fyrirmyndin var skýr, hlutverk fólks á haustin var að draga björg í bú til vetrar eða matarlítils tíma. Ég naut því þess að fá innsýn i lífsbaráttu aldanna á Íslandi, þ.e. þá tegund matarbjörgunar sem tíðkaðist fyrir tíð KRON og síðar Baugs. Mér fannst nauðsynlegt að styðja mömmu í hinni árstíðabundnu mataröflun á haustin. Ég var í sveit norður í Svarfaðardal fram til septemberloka flest haust fram að tvítugu. Ég vissi líka að mömmu þóttu aðalbláber, sem hún kallaði alltaf aðalber, bestu ber í heimi. Til að gleðja hana fór ég að fara í berjamó, ekki síst í berjalendur á Syðra Hvarfi. Svo sendi ég afraksturinn suður með vini mínum Óskari Jónssyni, flutningabílstjóra.

Berjatínslan var þökkuð. Mamma hringdi norður og þakkaði svo vel að ég skaust í berjamó að nýju og sendi meira. Svo var næsta ár mikið berjaár og ég sendi enn meira en fyrra árið og mamma var enn hrifnari. Svo varð einhver dularfullur kappsamningur gerður okkar í millum. Ég týndi tugi lítra af berjum, eitt árið líklega um 50 kíló, og sendi suður. Þar tóku mamma og amma við og þróuðu mikilvirkar hreinsunaraðferðir. Mamma notaði ryksuguna og sneri kerfinu þannig að í stað sugu blés vélin lofti í berjahrúgu á botni þvottaballa. Allt berjalyng og lauf þyrlaðist uppúr ílátinu og amma hreinsaði svo afganginn. Svo suðu þær, söftuðu og sultuðu megnið af berjunum. Bestu berin voru svo fryst til jólanna.

Búkona og ráðsmaður gæðanna

Atlaskistan másaði alla haustdagana, þegar búkonan kom vetrarkostinum fyrir, sláturtunnan fylltist. Búkonan mamma sofnaði með bros á vör hvert kvöld. Fólkið hennar myndi ekki líða skort þennan vetur. Það var gaman að fylgjast með hvernig mamma tók við gjöfum Skaparans, vann úr og lofsöng. Ég fékk að taka þátt í mataröflunaratferli mannkyns, sem varað hefur milljónir ára. Mamma var búkona á öllum sviðum lífs síns, góður ráðsmaður yfir gæðum af hæðum, gæðum veraldar.

Nú vetrar, engin sláturtíð hjá mömmu, engar fyrningar til vetrarins. Napur vindur þyrlar upp minningum um horfna tíð og móður sem ekki hefur þörf fyrir kostaríkt búr. Blessuð sé minning um mikla konu, sem Orðskviðirnir 31 lýstu svo vel.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-10-18/20.40.52/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli