sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Beðið fyrir brostnu lífi í Beslan · Heim · Neskirkja og blessun safnaðarheimilis »

Baggar bundnir á Grímsstaðaholti

Sigurður Árni Þórðarson @ 16.11 8/9/04

í túni heimaPabbi fæddist undir súðinni í Litlabæ á Grímsstaðaholti. Svo þegar afi og amma voru bæði fallin frá var kotið hans. Pabbi var framkvæmdamaður, áhugamaður um arkitektúr og byggingameistari að auki. Pabbi vildi byggja fjölskyldu sinni hús í landi Litlabæjar og leigði steinbæinn út. Þar bjuggu sá glaði og elskulegi Guðmundur og Lena kona hans. Þau áttu mörg börn og mér er fyrirmunað að skilja hvernig allt fólk þeirra komst fyrir í smáhýsinu. Þegar stórfjölskyldan flutti inn í Hólmgarð í rýmra húsnæði kom Filippía, móðursystir mín, inn í bæinn. Filippía, sem tók sér skáldanafnið Hugrún, var skemmtileg spunakona. Við, krakkarnir í hverfinu, löðumst að henni. Hún sagði okkur sögur og tók upp á ýmsum furðum.

Umhverfis Litlabæ var tún og er enn, sem svarar tveimur og hálfri lóð eins og þær eru flestar við Tómasarhagann. Afi og amma höfðu auðvitað heyjað þetta land handa skepnum sínum. Mamma breytti hluta þess í kartöflu- og grænmetisgarða. Gísli bróðir hennar og Thora, konar hans, notuðu einn garðinn, meðan þau bjuggu í Búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina í Reykjavík.

Sá hluti lóðarinnar, sem ekki var notaður fyrir garðrækt var eins og önnur tún í Reykjavík. Bóndakonan í mömmu gat ekki horft á ræktuð tún fara í órækt. Hún hafði sjálf unnið að því að slétta þýft land fyrir norðan og vissi um gildi ræktaðs lands. Engar hafði hún skepnurnar, en fékk á hverju ári einhvern til að slá landið með orfi og ljá. Síðan tók hún til við heyskap, sneri og sátaði, dreifði og þurrkaði eins og menn gerðu í hennar ungdæmi um allt land. Svo komu landlausir fjáreigendur og uppflosnaðir dreifbýlismenn með kerrur sínar og poka og hirtu heyið. Við fórum kannski að vori til að hitta ærnar sem höfðu notið kræsinga af Litlabæjartúni og skoðuðum lömbin þeirra líka. Í mömmusýslinu var góður lífstaktur.

Þegar ég var kominn á þrítugsaldur og í fyrsta skipti heima sumarlangt kom mamma mér á óvart. Hún ræsti soninn út í sumar og sól. Skuplan var á höfði og mamma dró fram úr verkfærageymslunni þessi líka fínu hrosshársreipi. “Nú skaltu binda með mér.” Svo lagði hún reipin á jörð, kenndi mér að leggja heyið á. Síðan stilltum við okkur upp sitt hvorum megin við heybinginn. Böndin voru gripin, þrædd í lykkjur og síðan var hert að. Mamma kunni að binda bagga og kenndi stráknum herslurytmann.

Hestar voru löngu útdauðir á Grímsstaðaholti á áttunda áratugnum. En þarna var kona á sjötugsaldri, sem batt bagga upp á gamla mátann bara til að skemmta sér. En nú er mamma látin, reipin liggja ónotuð í hlöðunni. Hrífurnar híma í húsi og eru sjaldan teknar fram til nota. Nú fer sláttuvél um flatirnar og safnarinn sér um aðhald. Engir karlar koma með flutningavagna sína, heldur fer grasið í endurvinnsluhauginn.

Reynslan lifir í taugum og minni mínu. Það var svo skemmtilegt hjá okkur mömmu þennan dag, sem við bundum saman bagga. Hún kunni bæði að vinna og kenna. Hún hló og skríkti og opnaði mér glugga í horfinn heim og sýndi verklag margra kynslóða.

Ég held að það sé alveg öruggt að mamma var sú sem síðust batt bagga í Reykjavík vestan við Elliðaár. Kannski kann einhver tökin og iðkar þau þá á Árbæjarsafni. Ég upplifði mömmu með reipi í höndum. Nú bindur hún sína bagga á öðru og meira Grímsstaðaholti. Ég er viss um að hún er ekki síður glöð en þegar hún batt með mér daginn góða. Þann dag upplifði ég ofurlítið himnaríki í gleði hennar.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-09-08/16.11.35/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli