sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Fyrirbænamessa í Neskirkju · Heim · Baggar bundnir á Grímsstaðaholti »

Beðið fyrir brostnu lífi í Beslan

Sigurður Árni Þórðarson @ 11.45 8/9/04

Á þessum degi grætur himinn og heimsbyggð. Af hverju æða menn með vopnum gegn vopnlausum börnum, grandalausum foreldrum? Af hverju blóðakur, blóðhús, blóðfólk í Beslan?

Af hverju þessi einbeitti brotavilji gegn siðviti þjóða, þjóðarbrota, trúarbragða? Hverrar ættar er þessi vilji til að slíta sundur lífskveik barna, nota æsku þeirra og varnarleysi, nota hið unga líf til að berjast með? Af hverju þessi guðsfirrð?

Góður Guð, skapari, lausnari og huggari.

Við komum fram fyrir þig með kröm heims,

líka með skelfingu gagnvart hryllingi hrottanna,

með bæn á vörum, bæn í huga og samsetta heimsbæn.

Við biðjum fyrir fórnarlömbum illvirkjanna í Beslan í Ossetíu.

Við biðjum fyrir þeim, sem létust, – varðveit sálir þeirra.

Við biðjum fyrir þeim sem særðust á sál og líkama – líkna þeim.

Við biðjum fyrir ættingjum og vandamönnum.

Gef þeim getu til að vinna með hatrið og hefndarviljann.

Lít til illvirkjanna sjálfra, lífs og liðinna – líkna þeim.

Hjálpa öllum til að fyrirgefa og hvika ekki af friðarvegi.

Fyrirgef þú hryllinginn í okkur öllum – kenn okkur ástarleið þína.

Á þessum degi grætur himinn og heimsbyggð.

Á þessum degi grætur þú, Guð.

Enn og aftur er hið saklausa líflátið.

Enn á ný er ráðist gegn þínu lífi, þinni sköpun, þínum kærleika.

Þökk fyrir að lífið lifir, því þú hefur umbreytt dauða í líf.

Á þessum degi er grátið, á þessum degi skín sól þín.

Kom þú til manna, kom til sköpunar þinnar, kom til heimsins sem þú hefur skapað.

Þú umspennir hið brostna líf í Beslan, þú umvefur allan heiminn með blessun þinni.

Lof sé þér.

Í Jesú nafni Amen.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-09-08/11.45.43/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli