sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Þriggja blýanta stríð · Heim · Tölurnar hennar mömmu »

Síðsumarsbæn

Sigurður Árni Þórðarson @ 22.37 25/8/04

allir biðjaGuð skapari alls sem er.
Opna þú augun fyrir litum himins og jarðar.
Opna hlustir fyrir unaðshljóðum í umhverfi okkar,
næmi fyrir orðum, sem þú hvíslar til okkar í ys daganna, sögum, sem þú ritar í ævibækur okkar,
og litum sem þú uppteiknar í augu okkar.

Guð sem ert lífgjöf veraldar.
Lof sé þér fyrir lífið.
Gef okkur fæðu fyrir líkama og sál.
Gef okkur nesti til vetrarferðarinnar.
Gef að við þiggjum ástarorðið eina,
næringuna einu,
þig.

Þú lífsins andi:
Kenn okkur að telja dagana vel, að við öðlumst viturt hjarta.
Kenn okkur að elska þig eins og þú elskar okkur,
að vera þín eins og þú ert okkar.
Kom þú í för með okkur í dag,
gakktu með okkur alla daga, þetta haust, þennan vetur
og síðan inn í hið litskrúðuga sumarland þitt.
Í Jesú nafni – amen.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-08-25/22.37.32/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli