sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Eitt eilífðar smáblóm · Heim · Rúnar í Neskirkju »

Orkideur til yndisauka

Sigurður Árni Þórðarson @ 22.36 4/6/04

orkideaOrkideur eru undursamleg blóm. Til eru yfir þrjátíu þúsund mismunandi afbrigði og brönugrasið er hin íslenska útgáfa. Ég sá orkideur álengdar fram eftir aldri, en hafði engar sérstakar tilfinningar gagnvart þeim. Í apríl 2000 breyttist allt. Þá fékk ég betri innsýn í veröld ástarinnar og blóm þeirrar tilveru.

Svo hef ég síðan setið um þegar orkideur eru á útsölu í Blómaval og bændur á þeim bæ hafa verið furðu duglegir að flytja inn og selja á innkaupsverði. Nú á ég níu stykki og tel mig hafa náð valdi á ræktuninni.

orkideaNú kemur tipsið. Vökva orkideur einu sinni í viku. Ég vökva mínar á laugardögum eftir hádegi! Láta vatn standa í pottinum einhverjar mínútur, jafnvel klukkutíma, og aðra hvora viku gef ég þeim áburð. Það er óþarfi að vera með einhverja vitleysu og kaupa vatn, Frjó selur duft sem maður blandar út með vökva úr krananum. Herlegheit á þúsund kr. hafa dugað fyrir ársvökvun á öllum okkar blómum innanhús. Það sem sparast kaupir maður orkideur fyrir. Alls ekki láta standa vatn í utanyfirpottunum.

Í viðtali við Embluskaparann Þorstein Tómasson (Garðyrkjuritið 2004) er síðan kynnt önnur vökvunar- og pottunar-aðferð, sem ég hef hugsað mér að prufa við tækifæri.

Blómin standa vikum og mánuðum saman, eru öllum til yndisauka. Svo hvílist plantan og springur svo út eftir einhverja mánuði að nýju. Orkideuræktin er einföld ef maður fylgir grunnreglunni. Kúnstin í þessu uppeldi eins og öðru er einföld: Bara að skapa réttan ramma og standa við hann.

orkideur til yndisEf þú ert svo í vandræðum með ræktina hefur þú bara samband við orkideubóndann í Litlabæ. Nú er svo komið, að ég er farinn að taka á móti orkideum með uppeldisvanda! Fólk hér í sókninni, sem hefur lent í öngstræti með sitt blóm hefur falið mér að vera upptökuheimili og gera plöntuna heilbrigða að nýju. Það eru sem sé engin takmörk fyrir því hvernig einn prestur getur þjónað sínu fólki! Hinn biblíulegi boðskapur um misjafnar gáfur og margvísleg hlutverk er í fullu gildi.

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-06-04/22.36.24/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli