sigurðurárni.annáll.is

AnnállBænircvGreinarLitlibærMataruppskriftirMyndirPistlarPrédikanirSkírnÚtfararræður

« Drengjasöngur · Heim · Lífið er gott á göngu »

Bæn á bænadegi

Sigurður Árni Þórðarson @ 16.05 23/5/04

Bænir handbókar presta er mikill fjársjóður. Ekkert ríkidæmi má hefta og kúga lífið. Bænirnar í handbókinni eru ekki lögmál, sem þjónar kirkjunnar verða að hlýða og hafa yfir. Í anda bæna handbókar er ég í seinni tíð farinn að semja eða biðja nýjar bænir.

Hér á eftir er almenn kirkjubæn frá bænadeginum fyrir viku síðan. Eins og allt, sem sagt er eða beðið í kirkju, er bænin eign hennar og má endurnýta. Það má nota þessa bæn og flytja í kirkju, ef andinn leiðir einhvern kirkjuþjón til þess. Orð í kirkjunni eru eign kirkjunnar. Bænir í kirkjunni eru áköll allrar kirkjunnar.

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Kenn oss að vera synir og dætur, sem tala við þig.

Kenn oss að hræðast ekki í návist þinni.

Kenn oss að umgangast þig með heilindum,

í verkum og vinnu, við eldhúsborð, á ferðalagi.

Alls staðar ert þú og þar sem við erum vilt þú vera nærri.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn heyr vora bæn

Guð sem ert líf kirkjunnar

Úthell anda yfir alla þjóna hennar.

Vér biðjum fyrir starfsfólki, barnastarfi.

Vér biðjum fyrir kirkjuvörðum og tónlistarfólki.

biskupum, prestum, sóknarnefndarfólki,

öllum þeim sem þjónustu gegna í kirkju þinni.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn heyr vora bæn.

Guð sem elskar fólk

Vér biðjum þig að blessa æsku þessa lands.

Ver með oss í uppeldi þeirra.

Gef þeim staðfestu, vilja og góð og lífvænleg gildi,

svo þau megni að afneita og sneiða hjá öllu sem eyðir og skemmir.

Gef að vér mættum vera þeim öflugar og góðar fyrirmyndir.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn heyr vora bæn.

Guð sem ert uppspretta réttar

Vér biðjum dómurum speki til réttlátra dóma,

löggjöfum skarpskyggni og ríkisstjórn vits.

Vér biðjum þig að gefa forseta og öðrum þjónum almennings bæði vernd og þjónustuanda.

Vernda þjóðina.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem sem vitjar hinna sjúku

Vér biðjum þig að blessa hina meiddu og særðu,

heima, á sjúkrahúsum og nefnum nöfn þeirra í hljóði.

——-

Vér biðjum fyrir hinum lánlausu í samfélaginu.

Kenn oss að heyra.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn: Drottinn, heyr vora bæn.

Guð sem talar í náttúrunni

Gef oss vitund um fegurð daggardropa,

blómknúppa, grasnálar, opnandi brums,

eggjahljóðandi fugla. Kenn oss að nema í bylgjum náttúrunnar anda þinn.

Kenn oss að anda í lífs- og verndar-takti þínum.

Ver með oss. Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn – Drottinn, heyr vora bæn.

Guð veislu og gleði

Þökk fyrir trú, von og kærleika.

Þökk sé þér fyrir veisluborð lífsins.

Vér biðjum og vér öðlumst.

Þú gefur brauð af himni, mettar oss alla daga.

Þú kemur sjálfur, gefur þig og þar með allt, gefur oss brauð að brjóta.

Lof sé þér.

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn. Drottinn, heyr vora bæn.

Játum syndir vorar og lifum í kærleika og sátt við alla menn….

Almenn kirkjubæn á bænadegi. Neskirkja 5. sd. e páska 2004

url: http://sigurdurarni.annall.is/2004-05-23/16.05.43/

© sigurðurárni.annáll.is · Færslur · Ummæli